Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/35185
Bakgrunnur: Parkinsonsjúkdómur er einn algengasti taugahrörnunarsjúkdómurinn og veldur erfiðum hreyfieinkennum og fjölmörgum ekki hreyfieinkennum. Sjúkdómurinn krefst flókinnar einkennameðferðar og í sumum tilvikum er notuð djúpkjarna rafskautsörvun (e. Deep Brain Stimulation, DBS). Slík meðferð dregur einkum úr hreyfieinkennum en getur einnig haft í för með sér vitsmunalega, geðræna og fleiri taugasálfræðilega fylgikvilla. Markmið: Að skoða hvaða afleiðingar DBS getur haft á kvíða, þunglyndi, sjálfsvígshegðun og hvataraskanir hjá Parkinsonsjúklingum (PS). Undirmarkmiðin voru að lýsa: (i) hvort sambandi sé lýst á milli þyngdaraukningar í kjölfar DBS og hvataraskana (ii) matstækjum sem voru notuð til þess að meta kvíða, þunglyndi, sjálfsvígshættu og hvataraskanir eftir DBS. Aðferð: Kerfisbundin fræðileg samantekt á megindlegum og blönduðum rannsóknum. Stuðst var við leiðbeiningar Joanna Briggs stofnunarinnar (JBI) og PRISMA yfirlýsingu við greiningu og framsetningu gagna. Kerfisbundin leit fór fram í PubMed og CINAHL á rannsóknargreinum, birtum frá janúar 2010 til ágúst 2019. Byrjað var á að skima titla og útdrætti og þær greinar sem stóðust inntökuskilyrði voru lesnar í heild sinni. Snjóboltaleit fór fram í Google Scholar og skoðun á heimildarskrám í greinum sem uppfylltu inntökuskilyrði. Hætta á skekkju var metin með sérsniðnum 10 atriða matsskala aðlöguðum út frá JBI MAStARI. Tveir rannsóknaraðilar mátu hvor í sínu lagi hverja rannsóknargrein. Samþætting á texta fór fram með orðum og sett fram með „the matrix method“ og lóðréttri samþættingu. Niðurstöður: Alls uppfylltu 34 megindlegar og ein blönduð rannsóknargrein inntökuskilyrði. PS með DBS voru samtals 3.220 og einstaklingar í samanburðarhópum 1.114. Í heildina litið var kvíði og þunglyndi ýmist óbreytt eða minna eftir að DBS meðferð hófst. Tíðni sjálfsvígshegðunar var 0% - 5% og voru flest sjálfsvíg/tilraunir framin <3 ára frá því rafskaut voru sett í PS. Einkenni hvataraskana ýmist minnkuðu, héldust óbreytt, versnuðu eða komu fram sem ný einkenni hjá sjúklingum sem ekki höfðu sýnt merki þess áður en rafskautsörvunin hófst. Þyngdaraukning kom fram hjá 12% - 88% PS með DBS en var aðeins metin í tengslum við hvataraskanir í einni rannsókn. Beck Depression Inventory (BDI) var algengasta mælitækið til að meta þunglyndi og sjálfsvígshættu, State-Trait Anxiety Inventory (STAI) til að meta kvíða og Ardouin skali til að meta hvataraskanir. Ályktanir: Parkinsonhjúkrunarfræðingar eru í kjör aðstæðum til að fylgjast með einkennum svo sem kvíða, þunglyndi og hvataröskunum á kerfisbundinn hátt eftir að DBS hefst hliðstætt mati á hreyfieinkennum. Mikilvægt er að upplýsa sjúklinga og aðstandendur um ofangreind vandamál sem oft falla í skuggann af augljósari einkennum svo sem hreyfieinkennum. Upplýsingarnar ber að veita bæði fyrir rafskautsaðgerð og einnig í eftirfylgd til að benda þeim á viðeigandi leiðir til að lágmarka þau. Nauðsynlegt er að PS sem meðhöndlaðir eru með DBS hafi greiðan aðgang að heilbrigðisþjónustu til að hindra óafturkræfan skaða sem hlotist getur í kjölfar þessara einkenna.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Lokaverkefni.SnædísJ.pdf | 1,21 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
IMG_20200510_0001.pdf | 457,65 kB | Lokaður | Yfirlýsing |