is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > B.A./B.Ed./B.S. verkefni - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/35240

Titill: 
 • „Eins og lokuð bók sem enginn þorir að opna“: Birtingarmyndir berdreymis og viðhorf til þess.
Námsstig: 
 • Bakkalár
Útdráttur: 
 • Rannsóknin snýst um birtingarmyndir berdreymis í sögnum á 19. öld fram til byrjunar 21. aldar og hvað það segir um samfélagslegt viðhorf til berdreymis á tímabilinu. Berdreymi er þá skoðað út frá hugtökunum þjóðtrú, sagnir, reynslusagnir, sögusagnir, samskiptaminni, og menningarlegt minni. Í rannsókninni er fyrst litið til þess hvernig berdreymi birtist í sagnahefð 19. og 20. aldar en síðan er birtingarmynd þess í samtímanum skoðuð eins og það birtist í fimm viðtölum frá árunum 2008 og 2019.
  Í upphafi er Sagnagrunnurinn tekinn til skoðunar og niðurstöður efnisorðanna draumar og fyrirboðar rannsökuð, en í gegnum hann er hægt að fá ákveðna sýn yfir stöðu berdreymissagna innan helstu sagnasafna Íslands. Þá eru sagnasöfnin Þjóðsögur og sagnir eftir Torfhildi Hólm, Íslenskar þjóðsögur og sagnir eftir Sigfús Sigfússon og Gríma hin nýja eftir Þorsteinn M. Jónsson tekin til umfjöllunar þar sem þau innihalda margar berdreymissagnir frá lokum 19. aldar og upphafi 20. aldar. Að lokum er stuðst við viðtöl sem tekin voru við berdreymna einstaklinga, en þau veita sýn inn í berdreymi í samtímanum.
  Sagnir af berdreymi í þjóðsagnasöfnum eru öðru fremur í formi reynslusagna og svo til engar sagnir í söfnunum fjalla um berdreymi fyrri alda. Það má því segja að þessar sagnir lifi fyrst og fremst í samskiptaminni þjóðarinnar en ekki menningarlegu minni hennar. Þá virðist sem að berdreymissagnir séu frekar sagðar af kvenkyns heimildarmönnum, og sagnirnar dreifast einnig um mestallt landið.
  Þá lítur út fyrir að innihald draumanna sé mjög svipað um aldamótin 1900 og í samtímanum, en í báðum heimildaflokkum birtust draumar fyrir sömu hlutunum, þá dauða einhvers, slysum og barneignum. Merking draumanna birtist þá annaðhvort á táknrænan eða skýran máta. Þeir berdreymnu sýndu einnig mikið traust til draumanna. Viðhorf til berdreymis virðist almennt hafa verið jákvætt en þó upplifðu sumir viðmælendur að í dag gætu þeir ekki talað opinskátt um berdreymi án þess að vera dæmdir fyrir draumatrú sína. Því virðist sem almennt viðhorf til berdreymis hafi breyst á þessu tímabili, en það má mögulega rekja til vísindahyggju samtímans.

Samþykkt: 
 • 13.5.2020
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/35240


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Eins og lokuð bók sem enginn þorir að opna.pdf1.13 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna
Skemman yfirlýsing.pdf300.38 kBLokaðurYfirlýsingPDF