Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/35247
Umsvif millilandaflugs á Íslandi hafa aukist á undanförnum 10 árum og ferðaþjónusta er í dag orðin ein af meginatvinnugreinum landsins. Síðastliðinn áratug hefur fjöldi ferðamanna og farþega með flugi margfaldast og í kjölfarið hefur efnahagslegt mikilvægi millilandaflugs og þar með ferðaþjónustu aukist. Á árinu 2019 varð í fyrsta sinn samdráttur í fjölda ferðamanna til landsins og farþegum íslenskra flugfélaga fækkaði í fyrsta sinn í áratug í kjölfar gjaldþrots flugfélagsins Wow Air. Fjölgun ferðamanna og aukin umsvif í millilandaflugi teygja anga sína víða í samfélaginu. Það leiðir til þess að miklar hræringar á fjölda ferðamanna og farþega geta leitt til mikilla breytinga á raungengi krónunnar, hagvexti og vinnumarkaði svo eitthvað sé nefnt.
Markmið þessarar ritgerðar er að sýna fram á mikilvægi þess að góðar flugsamgöngur séu ætíð til og frá landinu. Skoðað var efnahagslegt mikilvægi Keflavíkurflugvallar og farþega sem þar fara í gegn, farið var yfir hvernig hægt er að auka umsvif í greininni og hvernig Íslandi hefur tekist til. Lögð var áhersla á að sýna efnahagslegt mikilvægi flugreksturs á Ísland í gegnum ferðaþjónustu, þar sem könnuð voru áhrif aukinna umsvifa í fjölda ferðamanna á hagvöxt og raungengi krónunnur. Að auki var lögð áhersla á mikilvægi þess fyrir vinnumarkaðinn og hvernig væri hægt að ná enn betri árangri í greininni.
Í niðurstöðum aðhvarfsgreiningar kom í ljós að aukin umsvif ferðamanna með flugi skila sér annars vegar í meiri hagvexti og hins vegar í hærra raungengi krónunnar. Á tímum heimsfaraldurs Covid-19 er þó erfitt að gera grein fyrir auknum umsvifum þar sem nær öll ferðaþjónusta liggur niðri og erfitt er að segja til um hvenær hún tekur við sér á ný. Niðurstöður ritgerðarinnar eru þó skýrar þar sem mikilvægi flugtenginga fyrir ferðaþjónustu og hagkerfi er gríðarlega mikið og ljóst að ferðaþjónustan er íslensku hagkerfi mjög mikilvæg á hinum ýmsu sviðum.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Mikilvægi millilandaflugs fyrir íslenskt hagkerfi.pdf | 1.54 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
Yfirlýsing.pdf | 87.52 kB | Lokaður | Yfirlýsing |