Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/35393
Flestir gera sér að öllum líkindum grein fyrir mikilvægi heilbrigðiskerfisins og þeirra starfa sem þar eru unnin dag hvern allan ársins hring. Það fólk sem þar starfar vinnur oft á tíðum undir mikilli pressu og hlutirnir geta þurft að gerast hratt. Ljóst er að heilbrigðisstarfsfólki getur líkt og öðrum orðið á mistök við störf sín sem valdið geta þeim einstaklingum sem til þeirra hafa leitað tjóni. Slík mistök eru alla jafna bótaskyld en sjúklingum hefur aftur á móti í einhverjum tilvikum reynst erfitt að sækja sér bætur vegna þess tjóns sem þeir verða fyrir innan heilbrigðiskerfisins. Markmið ritgerðarinnar er að skoða hvernig brugðist hefur verið við þeim sönnunarörðugleikum sem sjúklingar mæta almennt þegar þeir verða fyrir tjóni vegna ætlaðra mistaka heilbrigðisstarfsfólks. Í upphafi ritgerðarinnar er litið til þeirra sjónarmiða sem í gildi eru á sviði sérfræðiábyrgðar og því næst rakin helstu lög og reglur sem gilda um störf heilbrigðisstarfsfólks. Þá er stuttlega vikið að refsiábyrgð heilbrigðisstétta og horft til þess hvort heppilegt sé að láta starfsfólk innan heilbrigðisþjónustunnar sæta refsingu verði því á mistök við störf sín. Þungamiðja ritgerðarinnar snýr þó að því að kanna hvaða leiðir hafa verið farnar til að reyna að tryggja að sjúklingum verði bætt það tjón sem þeir verða fyrir innan heilbrigðisþjónustunnar. Mikið hagræði fólst í setningu laga um sjúklingatryggingu nr. 111/2000, en þau bæta aftur á móti aðeins tjón upp að vissu marki. Þar sem þeim lögum sleppir þurfa sjúklingar því að sækja bætur á grundvelli almennra reglna skaðabótaréttarins. Er í ritgerðinni leitast við að skýra hvaða kröfur dómstólar gera til sjúklinga þegar þeir höfða mál á grundvelli almennra skaðabótareglna og í því skyni litið til þess hvernig hinn strangi mælikvarði sérfræðiábyrgðar á við þegar störf heilbrigðisstarfsfólks eru annars vegar. Samantekið virðist sem sjúklingum sé veitt þó nokkuð hagræði þegar kemur að því að sækja bætur vegna mistaka heilbrigðisstarfsfólks sem valdið hafa þeim tjóni. Þar sem lögum um sjúklingatryggingu sleppir þurfa sjúklingar þó enn að sýna fram á að heilbrigðisstarfsfólk hafi sýnt af sér saknæma háttsemi en sakarmatið er þó nokkuð strangara en almennt gerist í samræmi við þau sjónarmið sem gilda á sviði sérfræðiábyrgðar auk þess sem slakað hefur verið á kröfum til sönnunar á sök í einhverjum tilvikum. Þá virðast dómstólar enn fremur slaka verulega á sönnunarkröfum um orsakatengsl milli hinnar saknæmu háttsemi og tjónsins.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Meistararitgerd_EÞA.pdf | 854.03 kB | Lokaður til...05.05.2050 | Heildartexti | ||
Yfirlysing_skemman_EÞA.pdf | 43.36 kB | Lokaður | Yfirlýsing |