Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/35401
Frá því að þjóðhagfræði varð að heilsteyptri grein innan hagfræðinnar hefur hún tekið miklum framförum. Himinn og haf eru á milli þeirra líkana sem Keynesistar studdust við á sjötta og sjöunda áratugnum og þeirra líkana sem notuð eru í dag. Vinsælasta nálgunin í þjóðhagfræðilíkana gerð í dag eru Ný-Keynesísk líkön. Þau líkön urðu til sem svör við gagnrýni á Keynesísku líkönin á áttunda og níunda áratug síðustu aldar. Ný-Keynesísk líkön þróuðust samhliða raunhagsveiflulíkönum (RBC líkönum) þar sem hagsveiflur voru útskýrðar með engum markaðsbrestum og fullkomlega sveigjanlegum verðum. Þrátt fyrir þá gagnrýni sem RBC líkönin fengu á sig á níunda áratug síðustu aldar þá breyttu þau líkön grundarvallaratriðum í líkanagerð með því að byggja líkönin á rekstrarhagfræðilegum grunni. Sú aðferðarfræði markaði upphaf DSGE líkana sem Ný-Keynesísk líkön byggja iðulega á.
Kjarninn í Ný-Keynesískum líkönum er almennt sá að hægt sé að útskýra hagsveiflur út frá tilvist markaðsbresta. Oft er lögð áhersla á tregbreytanleg verð og ófullkomna samkeppni á borð við einkasölusamkeppni þar sem fyrirtæki hafa markaðsvald.Hagstjórn hefur iðulega mikilvægu hlutverki að gegna og er algengt að hún notist við Taylor reglu við stjórn peningamála. Til að hægt sé að nota Taylor reglu þarf að ákveða stikagildi við verðbólgu og framleiðsluspennu sem segja til um hvernig peningamálastjórn muni bregðast við breytingum í verðbólgu og framleiðsluspennu.
Í ritgerðinni er sett upp einfalt Ný-Keynesískt líkan þar sem jafnvægi er lýst út frá Ný-Keynesískum Phillips ferli, IS kúrfu og Taylor reglu ásamt eftirspurnar- og peningaáfalli. Líkanið er síðan notað til að meta hagkvæmustu stikagildi Taylor reglunnar ásamt því að skoða áhrif áfalla miðað við mismunandi forsendur. Í ljós kemur að stikagildin í Taylor reglunni eru háð áherslum peningamálastjórnar sem og aðstæðum í hagkerfi hverju sinni. Peningamálastjórn sem hefur það að meginmarkmiði að lágmarka sveiflur í verðbólgu gerir það á kostnað aukinna sveiflna í verðbólgu og framleiðsluspennu. Hagkvæmustu stikagildin taka breytingum eftir því hversu stór áföllin eru ásamt því hversu lengi áföllin eru að deyja út. Ljóst er að hagkvæmasta Taylorregla hefur ekki föst stikagildi heldur tekur breytingum eftir áherslum og áskorunum peningamálastjórnar.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Benedikt Axel BS ritgerð vor 2020.pdf | 854.05 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
Yfirlýsing (2).pdf | 42.21 kB | Lokaður | Yfirlýsing |