is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Hugvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Hugvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/35414

Titill: 
  • Goðsögnin um hina glöggu mynd
Námsstig: 
  • Meistara
Útdráttur: 
  • Hvaða siðfræðilegu þýðingu hefur hugtakið „glögg mynd“ í áritun endurskoðenda? Lög og staðlar kveða á um að ársreikningar skuli gefa glögga mynd af rekstri, efnahag og fjárhagsstöðu félags. Hlutverk ársreikningsins er að veita viðeigandi, áreiðanlegar, samanburðarhæfar og skiljanlegar upplýsingar sem nothæfar eru til að undirbyggja upplýsta og skynsama ákvörðun notenda um málefni er varða viðkomandi rekstrareiningu. Nái ársreikningurinn ekki að vera upplýsandi að þessu leyti er enginn tilgangur með samningu hans. Í þessari ritgerð er fjallað um siðfræðilega merkingu hugtaksins „glögg mynd“ í áliti endurskoðenda. Er um að ræða sjálfstæða meginreglu samkvæmt orðanna hljóðan eða tæknilegan frasa sem ber að skilja þröngt út frá gildandi reikningsskilareglum sem fyrst og fremst er á færi kunnáttumanna í reikningshaldi að skilja? Hér er því haldið fram að hlutverk endurskoðenda sé siðferðilegs eðlis og felist öðrum þræði í að verja hag þeirra sem berskjaldaðastir eru ef félag veitir rangar eða villandi upplýsingar um afkomu sína. Ennfremur verða færð rök fyrir því að það sé ekki siðferðilega ásættanlegt ef endurskoðendur vísa ábyrgð af villandi og röngum ársreikningum alfarið á reglurnar og segja: „Ábyrgð mín felst í að staðfesta að semjendur hafi farið að settum reglum og þetta er glögg mynd í samræmi við reglurnar sjálfar.“ Það er þegar siðferðileg ábyrgð endurskoðenda er skilin á þennan veg sem hin glögga mynd verður einungis goðsögn. Ástæðuna má að einhverju leyti finna í þeirri þróun að túlka reikningsskilareglur út frá þröngri regluhyggju þar sem vatnað hefur undan vægi dómgreindar endurskoðenda og semjendur telja allt heimilt sem ekki er sérstaklega bannað. Túlkun af þeirri gerð endurspeglar hættulega hugsanavillu og býður upp á svokallaða smugusiðfræði þar sem viðmiðin eru talin svo ítarleg að ekkert rúmist utan þeirra. Slík þróun er ekki einast skaðleg sjálfum ársreikningnum og spágildi innihalds hans heldur virðisrýrir hún hlutverk og sérfæðiþekkingu endurskoðenda. Reikningshaldsreglur eru ekki og verða aldrei tæmandi listi af fyrirmælum sem ná til allra mögulegra og ómögulegra viðskipta. Þeim er ætlað að vera stuðningur fyrir semjendur og endurskoðendur við úrlausn reikningshaldslegra vandamála með það að markmiði að verja glögga mynd frásagnarinnar. Þeim er hvorki ætlað að vera skálkaskjól fyrir gagnrýni á gildi innihaldsins né heldur vald til að taka yfir sjónarhornið. Eina haldbæra vörnin gegn smugusiðferði er að endurskoðendur viðurkenni siðferðilega skyldu sína til að verja stöðu meginreglunnar með því að vinna verk sitt af skyldu við hina glöggu mynd fremur en samkvæmt skyldu við bókstaf reglunnar eða sérhagsmuni af einhverju tagi. Endurskoðendur þurfa að sýna frumkvæði, hugrekki og siðferðisþrek til að bregðast við ef reglurnar megna ekki að framkalla glögga mynd. Að öðrum kosti eru líkur til þess að álit endurskoðenda ýti undir ákveðna tálsýn og hafi skaðleg áhrif á spágildi reikningsskilanna með óréttmætum hætti.

Samþykkt: 
  • 19.5.2020
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/35414


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
20-05-18 Lokaverkefni í hagnýtri siðfræði ((SIÐ431L) Ágúst H. Ólafsson kt. 280167-4799.pdf306.61 kBLokaðurYfirlýsingPDF
20-06-24 (SIÐ431L) MA ritgerð í hagnýtri siðfræði, Ágúst H. Ólafsson kt. 280167-4799 fin.pdf1.98 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna