Please use this identifier to cite or link to this item: https://hdl.handle.net/1946/35436
Mikill árangur hefur náðst í verkalýðsbaráttu á Íslandi síðustu 100 ár. Verkefni launþegahreyfingarinnar nú eru fjölbreytt og krefjandi og um margt ólík þeim áskorunum sem hreyfingin stóð frammi fyrir um aldamótin 1900. Á undanförum árum hefur ákveðin harka hlaupið í samskipti milli launþegahreyfingarinnar og atvinnurekenda. Stjórnvöld hafa oft þurft að koma að lausn deilna þeirra á milli. Þessum deilum fylgir oft óöryggi og vantraust á vinnumarkaði og í samfélaginu sem heild. Sérstaklega á þetta við þegar þessir aðilar ná ekki saman við kjarasamningsgerð. Rannsakandi velti því fyrir sér hvernig aðferðfræði verkefnastjórnunar og þá sérstök sýn greinarinnar á hagsmunaaðila sé vænleg til þess að stuðla að árangurríkari útkomu verkefna sem að launþegahreyfingin tekur sér fyrir hendur. Þannig hafa fræðimenn bent á að með því að greina, flokka og stýra samskiptum við hagsmunaaðila er líklegra að góður árangur náist. Að sama skapi gæti slík skoðun nýst öðrum aðilum á vinnumarkaði en slík skoðun fellur utan við efni þessarar rannsóknar.
Markmið þessar rannsóknarritgerðar er að veita innsýn inn í hvernig stjórnun hagsmunaaðila (e. stakeholder management) er háttað meðal stéttarfélaga og sambanda stéttarfélaga. Framkvæmd var eigindleg rannsókn og greint út frá henni á hvaða þætti reynir helst og hvað væri mikilvægast í stjórnun hagsmunaaðila innan hreyfingarinnar. Gagnaöflunin fór fram með því að taka sex hálfstöðluð viðtöl við einstaklinga sem stýrt hafa verkefnum innan launþegahreyfingarinnar hér á landi.
Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu að viðmælendur höfðu misjafna reynslu af hagsmunaaðilum sínum og að fyrri reynsla þeirra af samstarfi við hagsmunaaðila hefur þýðingu fyrir framtíðarverkefni þar sem sömu hagsmunaaðilar koma fyrir aftur. Þá töldu viðmælendur traust vera lykilþátt í samskiptum við hagsmunaaðila og undirstaða þess að hægt væri að ná góðum árangri í þeim verkefnum sem launþegahreyfingin tekur sér fyrir hendur. Þessi þáttur kemur fram í gegnum tvö þemu Traustið er málið og Stéttarbarátta framtíðarinnar. Þessi þemu greindust í sjö flokka en undir Traustið er málið voru þrír flokkar: Traust og traustuppbygging, samskipti og umboð. Undir Stéttarbarátta framtíðarinnar voru síðan fjórir flokkar: Mælingar á árangri, væntingar félagsmanna, stolt og liðsheild og að lokum framtíðaráskoranir. Þessi þemu og flokkar draga fram þær áherslur sem viðmælendur höfðu varðandi hagsmunaaðila launþegahreyfingarinnar og benda á mikilvægi að traust sé í samskiptum á vinnumarkaði. Því sé ekki hægt að ná nema með hreinskilnum og opnum samræðum og þá sé mikilvægt að allir aðilar hafi umboð til þess að gera það sem þeir segja. Þá má sjá merki ákveðinnar þróunar innan launþegahreyfingarinnar í þá átt að nýta frekar aðferðafræði verkefnastjórnunar við framkvæmd verkefna enda hefur ef til vill skapast ákveðin þörf fyrir slíkt með nýjum verkefnum og áskorunum sem launþegahreyfingin stendur fyrir. Með liðsheild og samstöðu að vopni er að mati rannsakanda eru hreyfingunni þó allir vegir færir. Á þessari vegferð geta verkefnastjórnun og sú aðferðarfræði, svo sem stjórnun hagsmunaaðila, sem hún byggir á verið góður grunnur fyrir komandi átök á vinnumarkaði.
Filename | Size | Visibility | Description | Format | |
---|---|---|---|---|---|
Stjórnun hagsmunaaðila lokaútgáfa.pdf | 1,13 MB | Open | Complete Text | View/Open | |
Skemman_yfirlysingSIS.pdf | 1,44 MB | Locked | Declaration of Access |