Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/35456
Í þessari ritgerð er fjallað um fjögur íslensk handrit sem skrifuð voru á 15. öld: AM 471 4to, AM 489 I 4to, AM 593 a 4to og AM 593 b 4to. Þeirri tilgátu hefur verið varpað fram að þessi handrit hafi upprunalega verið tvö stór handrit; annars vegar AM 471 4to og AM 489 I 4to, og hins vegar AM 593 a og AM 593 b 4to. Enn fremur hefur verið bent á líkindi í skrift og stafsetningu með þessum fjórum handritum, og vestfirsku jarðakaupabréfunum AM Dipl. Isl. Fasc. XIV 18 og AM Dipl. Isl. Fasc. XXI 24. Ritgerðin skiptist í fimm meginkafla. Í inngangi er rannsóknarefnið kynnt stuttlega og lagðar eru fram eftirfarandi rannsóknaspurningar sem leitast er til að svara:
1. Voru handritin AM 471 4to og AM 489 I 4to ein bók?
2. Voru handritin AM 593 a 4to og AM 593 b 4to ein bók?
3. Eru þessi fjögur handrit skrifuð með sömu hendi?
4. Hver eru tengsl þessara handrita við jarðakaupabréfin AM Dipl. Isl. Fasc. XIV 18 og AM Dipl. Isl. Fasc. XXI 24?
5. Er hægt að segja eitthvað um líklegan ritunarstað þessara handrita?
Í öðrum kafla er sagt frá handritunum fjórum, innihaldi, ástandi, stærð og kveraskiptingu, lýsingum, fylgdargögnum og ferli. Einnig er stuttlega fjallað um vestfirsku bréfin. Þriðji kafli er helgaður skriftarfræði. Þar er sagt frá hvers konar aðferðum hefur verið beitt í eldri rannsóknum til þess að greina milli rithanda í miðaldahandritum. Því næst eru valin skriftareinkenni í handritunum fjórum og bréfunum tveimur tekin fyrir og borin saman. Í fjórða kafla eru örfá valin einkenni í stafsetningu og máli í handritunum og bréfunum til umfjöllunar og þau borin saman. Í fimmta og jafnframt síðasta kafla ritgerðarinnar eru niðurstöður rannsóknarinnar teknar saman.
Niðurstöður rannsóknarinnar eru í stuttu máli að hönnun handritanna benda til þess að þetta hafi í öndverðu verið tvær bækur sem síðar var skipt, líkt og haldið hefur verið fram. Samanburður á skrift og stafsetningu bendir eindreigið til þess að sami skrifari hafi skrifað bæði handritapörin og bæði bréfin. Hvort handritin eigi vestfirskan uppruna er óljóst. Ekkert í stafsetningu bendir sérstaklega til þess að þau séu vestfirsk, en náinn skyldleiki þeirra við vestfirsku bréfin gefur það til kynna að þau hafi einnig átt sinn uppruna á Vestfjörðum.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
mathh_lokagerð.pdf | 3.73 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
Yfirlýsing.pdf | 216.21 kB | Lokaður | Yfirlýsing | ||
MA_kápan_thh.pdf | 267.32 kB | Opinn | Titilsíða | Skoða/Opna |