is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/3546

Titill: 
  • Mapping of genomic aberrations in non-BRCA1/2 familial breast cancer using array-CGH
Titill: 
  • Kortlagning erfðabrenglana með hjálp örflögutækni í brjóstaæxlum sjúklinga úr ættum með hækkaða tíðni meinsins
Námsstig: 
  • Meistara
Útdráttur: 
  • Brjóstakrabbamein er næst algengasta krabbamein í heiminum og greinist ein af hverju tíu konum í hinum vestræna heimi með sjúkdóminn á lífsleiðinni. Auk aldurs er fjölskyldusaga um brjóstakrabbamein einn helsti áhættuþátturinn sem staðfestur hefur verið. Tvö æxlisbæligen, BRCA1 og BRCA2, hafa verið einangruð og hefur verið sýnt fram á að kímlínustökkbreytingar í þeim auki áhættuna á að fá brjóstakrabbamein 10-20-falt. Samhliða þess konar stökkbreytingu sjást í æxlunum ummerki þess að samstæði mótlitningurinn hafi misst erfðaefnisbút sem innihélt heilbrigða eintak gensins, í samræmi við kenningu Knudson um tveggja þrepa æxlismyndun. Margar fjölskyldur eru með ættlægni sem ekki skýrist af BRCA1 eða BRCA2 en fram að þessu hafa engin fleiri gen með ámóta þýðingu fyrir ættlæg brjóstakrabbamein verið einangruð.
    Þessi rannsókn nýtir array-CGH (örflögutækni) til að finna magnbrenglanir litningshluta í æxlum og kortleggja hvaða litningssvæðisvæði sýna áþekka brenglun þegar meðlimir hverrar fjölskyldu eru bornir saman. Slík litningssvæði geta borið í sér gen sem ráða framvindu krabbameinsins og jafnvel orsaka ættlægnina en það er þá sannreynt frekar með erfðatengslaprófi. Sýni úr 131 æxli með ættlægni án kímlínubreytinga í BRCA1 eða BRCA2 voru tekin í örflöguskoðun og af þeim voru 61 úr 15 fjölskyldum með þrjú eða fleiri sýni. Fjögur svæði á litningi 16 reyndust hafa algengar magnbrenglanir í fimm fjölskyldum, nánar tiltekið í a.m.k. 19 af 23 æxlum. Tvö svæðanna eru með magnaukningu og eru á stutta armi litningsins (16p13.3 og 16p11.2), hin tvö sýna magntap og eru á langa arminum (16q21 og 16q23.2). Tengslagreining á völdum erfðamörkum í viðkomandi svæðum á litningi 16 sýndi ekki marktæk tengsl við brjóstakrabbamein í þessum fjölskyldum en í einni þeirra reyndust þær fimm konur sem fengið höfðu brjóstakrabbamein hafa erft sameiginlega setröð á 16q21. Með stikalausu fjölpunkta tengslaprófi á þeirri fjölskyldu fengust hámarkslodgildi 1,6 til 1,8. Í svæði sameiginlegu setraðarinnar er að finna SNP-erfðaþátt, rs3803662, sem nýlega var sýnt fram á að bæri erfðasamsætu með væg áhrif til brjóstakrabbameinsmyndunar. Þessi erfðaþáttur var greindur í viðkomandi fjölskyldu og líka hinum fjórum og reyndist ekki skýra þá háu tíðni brjóstakrabbameins sem finnst í fjölskyldunum. Annarsstaðar á litningi 16 (16p12) er að finna genið PALB2 sem sýnt hefur verið fram á að tengist brjóstakrabbameinsáhættu í Finnlandi. Það er staðsett í 10 cM fjarlægð frá svæðinu sem sýndi tíða magnaukningu á 16p11.2. PALB2 sýndi ekki marktæk erfðatengsl í íslensku fjölskyldunum. Rannsóknin í heild bendir til að ættlægnin sem skoðuð var stafi ekki af almennum áhrifum æxlisbæligens né gens sem af einhverjum orsökum kynni að einkennast af því að sjást magnbreytt í æxli.

Samþykkt: 
  • 18.9.2009
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/3546


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Gunnarsson_fixed.pdf2.16 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna