Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/35495
Bakgrunnur: Kynferðislegt samþykki er tiltölulega nýleg umræða í samfélaginu og hefur verið ákveðin vitundarvakning undanfarin ár vegna byltinga á borð við #MeToo. Efnið er lítið rannsakað, þar með er skilningurinn á hugtakinu lítill og því má gera ráð fyrir að einstaklingar eru ekki að veita skýrt samþykki fyrir kynlífi.
Tilgangur og markmið: Tilgangur þessarar fræðilegu samantektar var að skoða hvað felst í kynferðislegu samþykki meðal ungs fólks. Markmiðið er að skoða samþykki, með eða án orða, eftir kynjamun og áhrifaþáttum.
Aðferð: Þessi fræðilega samantekt byggir á tíu rannsóknargreinum. Heimildaleit fór fram í gagnabanka PubMed með ákveðnum leitarorðum auk þess var ein grein tekin úr heimildalista einnar greinar. Gagnaleitin miðaðist við greinar sem komu út á árunum 2010-2020 en vegna þess hve lítið er búið að rannsaka efnið er ein greinin eldri. Stuðst var við greinar á ensku. Í upphafi var ætlunin að skoða greinar sem snúa að konum, en þar sem málefnið er frekar nýlegt eru flestar rannsóknirnar með báðum kynjum.
Niðurstöður: Kynferðislegt samþykki virðist vera tjáð á mismunandi hátt hjá báðum kynjum, það er ýmist tjáð með líkamlegri tjáningu án orða, með orðum eða hvoru tveggja. Fram kom að þegar einstaklingar tjá sig með orðum sé um að ræða skýrt samþykki. Flestir virðast nota líkamlega tjáningu til þess að veita samþykki sitt, en konur voru þar í meirihluta. Þegar líkamlegri tjáningu er beitt til þess að tjá samþykki er mun líklegra að misskilningur geti átt sér stað. Margir áhrifaþættir geta skipt máli þegar kemur að kynferðislegu samþykki eins og þvingun, áfengis og vímuefna notkun og lengd parasambanda.
Umræður/ályktun: Niðurstöður þessarar samantektar sýna að ungt fólk tjáir samþykki sitt á mismunandi hátt og virðist meirihluti þeirra nota líkamlegar vísbendingar frekar en tjáningu með orðum. Hugtakið kynferðislegt samþykki virðist hafa óskýra merkingu meðal fólks þar sem umræðan er nýleg og málefnið hefur ekki verið mikið rætt. Nauðsynlegt er að einstaklingar geti haft samskipti fyrir kynmök til þess að vita hug hvors annars. Forvarnarstarf í framtíðinni er mikilvægt til þess að opna umræðuna um mikilvægi kynferðislegs samþykkis. Hjúkrunarfræðingar gegna meðal annars því hlutverki að veita fræðslu um kynheilbrigðismál og stuðla að forvörnum og geta því aukið þekkingu og færni ungs fólks á kynferðislegu samþykki.
Lykilorð: Kynferðislegt samþykki, ungar konur, ungir karlmenn og samskipti.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
BS verkefni skemman.pdf | 471,2 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
Scan 1.jpeg | 134,41 kB | Lokaður | Yfirlýsing | JPG |