Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/35513
Aukin umræða er um álag í starfi innan bæði mennta- og heilbrigðisgeirans sem og annars staðar innan hins opinbera. Aukin áhersla hefur verið á mannauðsmál innan hins opinbera til að minnka starfsmannaveltu og veikindi, bæta frammistöðu, framlegð og til að tryggja starfsánægju starfsfólks. Þar skipta sálfélagslegir þættir í starfsumhverfi höfuðmáli. Því er mikilvægt að stjórnendur og verkefnastjórar geri sér grein fyrir hvaða þættir hafa jákvæð áhrif á vinnustaðinn og starfsfólk í hvers kyns skipulagsbreytingum til að bæta vellíðan, gæði þjónustu og ná settum ávinningi og markmiðum.
Markmið rannsóknarinnar var að bera saman sjálfsmat starfsfólks, innan mennta-, heilbrigðis- og annars opinbers geira á sálfélagslegum þáttum er varða stuðning, álag og óöryggi í starfi. Einnig voru tengsl við bakgrunnsbreytur svo sem menntun, aldur og kyn sem og andlega og líkamlega heilsu borin saman innan mismunandi geira.
Við rannsóknina voru nýtt megindleg gögn sem Félagsvísindastofnun safnaði fyrir Félagsmálaráðuneytið 2019, fyrir mennta-, heilbrigðis- og annan opinberan geira og gögn greind í SPSS. Endanlegt úrtak var 7.872, fjöldi svarenda 3.218 (41%) og alls 1.291 þátttakendur sem tilheyra geirunum þremur.
Niðurstöður sýna að innan menntageirans upplifir starfsfólk meira álag en heilbrigðisgeirinn á meðan óöryggi í starfi er meira innan annars opinbers geira en bæði mennta- og heilbrigðisgeirans. Menntunarstig, aldur og kyn hefur áhrif á mat starfsfólks á stuðningi, álagi og óöryggi í starfi. Ekki er munur á milli geiranna hvernig starfsfólk upplifir andlega og líkamlega heilsu sína en misjafnt er innan geiranna hvaða sálfélagslegu þættir hafa áhrif á heilsu starfsfólks og miðað við menntunarstig, aldur og kyn. Niðurstöður rannsóknarinnar eru í takt við fræðilega þekkingu á sviðinu en um er að ræða samanburð sem lítið hefur verið rannsakaður áður. Niðurstöðurnar má nýta við þróun og umbætur á starfsumhverfi og stjórnun sérfræðinga á vegum hins opinbera.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Una Bjarnadóttir - MS í Verkefnastjórnun.pdf | 1.88 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
Skemman - Yirlýsing um meðferð lokaverkefnis - Una Bjarnadóttir.pdf | 293.15 kB | Lokaður | Yfirlýsing |