Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/35554
Einn af hornsteinum íslenskrar málstefnu er nýyrðastefnan. Markmiðum málstefnunnar er að mestu fylgt við myndun körfuboltaorða. Það er gert án þess að formlegt nýyrðastarf hafi átt sér stað í orðanefndum. Engu að síður ber orðaforðinn þess merki að málnotendur hafi lagt sig fram um að búa til ný orð yfir fjölmörg heiti og hugtök sem vantaði íslensk orð yfir eftir að íþróttin barst til landsins. En þó ný orð á íslensku séu mynduð er ekki þar með sagt að þau verði notuð. Orð í körfuboltamáli hafa þurft að keppa um hylli málnotenda. Tvígrip hefur þannig sigrað keppnina við tvírek. Hugtakið tálmun (e. blocking) tengist baráttu orðanna, en í því felst að orð eða orðmyndir sem til eru í orðasafninu geta komið í veg fyrir að önnur orð með sömu (eða sambærilega) merkingu séu mynduð. Þannig kann spjald að hafa tálmað orðinu körfuþil. Tálmun nær þó ekki til orða af ólíku málsniði. Misforlmeg eins og knöttur og bolti geta bæði lifað í málinu þó þau hafi nákvæmlega sömu merkingu.
Orðmyndun í körfuboltamáli er að flestu leyti dæmigerð fyrir myndun nýrra orða í íslensku almennt. Langflest körfuboltaorð eru nafnorð, rétt eins og flest ný orð í málinu eru nafnorð. Samsetning er algengasta aðferðin til að mynda ný nafnorð, bæði í körfuboltamáli og almennt í tungumálinu. Rúmlega þriðjungur allra samsetninga körfuboltamálsins eru tökuþýðingar en stór hluti nýrra orða sem búin hafa verið til á íslensku eru tökuþýðingar. Það sem helst er ólíkt með körfuboltamáli og íslensku almennt er að fast samsett orð og eignarfallssamsetningar virðast vera álíka margar í körfuboltamáli en eignarfallssamsetning er langalgengasta samsetningin í íslensku. Hátt hlutfall fast samsettra orða í körfuboltamáli kann að skýrast af því að orðaforðinn inniheldur margar samsetningar með fyrri liði sem hafa tilhneigingu til að mynda frekar fast samsett orð en aðrar gerðir samsetninga.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Stökkskot og stoðsendingar.pdf | 563.47 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
Kristján Gauti Karlsson_yfirlýsing.pdf | 1.05 MB | Lokaður | Yfirlýsing |