Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/35625
Inngangur: Methicillin ónæmur Staphylococcus aureus (MÓSA) er ónæmur fyrir öllum β-laktam lyfjum, þar með talið β-laktam lyfjum blönduðum β-laktamasa hemlum. Methicillin ónæmi meðal S. aureus er oftast miðlað með mecA geninu sem kóðar fyrir nýja gerð af penisillín bindipróteini, PBP2a, sem hefur lága sækni í b-laktam lyf og leiðir þannig til ónæmis gegn þessum flokki sýklalyfja. Þó MÓSA sýkingar séu fátíðar á Íslandi miðað við flest Evrópuríki virðist hafa orðið aukning á MÓSA sýklun og mjúkvefjasýkingum hjá börnum og fullorðnum sem leita til heilbrigðisstofnana undanfarin ár. Markmið rannsóknarinnar var að kanna hvort nýgengi MÓSA hafi raunverulega aukist undanfarin 11 ár og meta faraldsfræði hjá börnum og fullorðnum.
Efni og aðferðir: Gerð var afturskyggn faraldsfræðileg rannsókn á MÓSA greiningum á landsvísu á tímabilinu 1. janúar 2009 - 31. desember 2019. Úr gagnasafni Sýkla- & veirufræðideildar LSH (SVEID) fengust upplýsingar um öll MÓSA-jákvæð sýni auk upplýsinga um næmispróf og ástæðu sýnatöku. Gagnasafn með spa týpu og Panton Valentine Leukocidin (PVL) greiningum MÓSA stofna á tímabilinu fékkst hjá SVEID. Birtingarmynd sýkingar eða sýklunar var flokkuð eftir sýnatökustað og skiptist í mjúkvefjasýkingu, aðra sýkingu (t.d. blóðsýkingu eða þvagfærasýkingu) eða einkennalausa sýklun. Upplýsingar um tengsl við heilbrigðiskerfið, nýlegar utanlandsferðir eða þekkt tengsl við önnur MÓSA tilfelli voru notaðar til að álykta um uppruna smits. Áætlaður uppruni sýkingar/sýklunar var flokkaður í heilbrigðiskerfissmit, samfélagssmit eða samfélagssmit með tengsl við heilbrigðiskerfið.
Niðurstöður: Alls greindust 660 MÓSA tilfelli hjá 631 einstaklingum. Nýgengi MÓSA tilfella jókst á rannsóknartímabilinu 2009-2019 (p<0,05). Mjúkvefjasýking var ástæða sýnatöku í 48% tilfella, aðrar sýkingar 11% en 41% tilfella voru einkennalausar sýklanir sem greindust við MÓSA-skimun. Hlutfall mjúkvefjasýkinga var hæst í aldurshópnum 2-5 ára, einkennalausrar sýklunar hjá yngri en 6 mánaða og annarra sýkinga hjá 6 mánaða að 2 ára aldri. 15% smita höfðu orðið innan heilbrigðisstofnunar, 54% voru samfélagssmit og 31% samfélagssmit með tengsl við heilbrigðiskerfið. Aldurshópar 0-5 mánaða og 67 ára og eldri voru með hæsta hlutfall heilbrigðiskerfissmita. Samfélagssmit var algengasti uppruni sýkinga eða sýklunar hjá börnum. Aldurshópur 40-66 ára var með hæsta hlutfall samfélagssmita með tengsl við heilbrigðiskerfið. Alls greindust 149 spa týpur meðal 660 MÓSA tilfella á tímabilinu og 42% stofna báru PVL gen.
Ályktanir: Nýgengi MÓSA sýklunar og sýkingar á Íslandi hækkaði á tímabilinu 2009-2019 í samræmi við hækkun á árunum 2000-2008 (p<0,05). Hækkun nýgengis varð þó sérstaklega hjá aldurshópum undir 2ja ára (p<0,001). Hluti skýringarinnar kann að vera valbjögun vegna vikulegrar skimunar á Vökudeild LSH í kjölfar MÓSA faraldurs þar árið 2015. Hátt hlutfall mjúkvefjasýkinga hjá aldurshópnum virðist þó benda til þess að um raunverulega aukningu sé að ræða. Meirihluti tilfella eru samfélagssmit og ástæður þess margvíslegar. Ísland er með lægra nýgengi MÓSA en flest önnur Evrópuríki en aukin ferðamennska gæti átt þátt í aukinni útbreiðslu MÓSA stofna.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
MÓSA á Íslandi.pdf | 2,01 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
ld.pdf | 284,07 kB | Lokaður | Yfirlýsing |