is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/35626

Titill: 
  • Samanburður á klínísku mati og ómskoðun á frumbyrjum við fæðingu
Námsstig: 
  • Bakkalár
Útdráttur: 
  • Inngangur: Til að fylgjast með framgangi fæðingar er notað klínískt mat með þreifingu um leggöng sem oftast er framkvæmt af ljósmóður. Við slíka skoðun er metin meðal annars staðsetning höfuðs í grind, staða hnakka og útvíkkun legháls. Nýlegar rannsóknir benda til þess að með ómskoðun sé hægt að safna sömu upplýsingum, mögulega á nákvæmari hátt og með minni óþægindum fyrir fæðandi konur. Til þess að hægt sé að nota ómskoðanir í sama tilgangi þurfa að liggja fyrir upplýsingar um hvernig þær reynist í samanburði við klínískt mat. Tilgangur rannsóknarinnar var að bera saman ómskoðunarbreytur og breytur sem fengust við klínískar skoðanir. Einnig var kannað hvaða áhrif fæðingarsveppur, sem auðvelt er að greina með ómskoðun, hefur á útkomu fæðinga.
    Efni og aðferðir: Rannsóknin er framsýn ferilrannsókn og stóð gagnasöfnun yfir tímabilið janúar 2016 til apríl 2018. Rannsóknarhópurinn samanstóð af 99 frumbyrjum í sjálfkrafa sótt við ≥37 vikur sem fæddu á Kvennadeild Landspítalans. Niðurstöður sem fengust út úr klínískri skoðun með innri þreifingu annars vegar og með ómskoðun hins vegar með innan við 30 mínútna millibili. Klínísku breytunum um stöðu höfuðs í grind var breytt yfir á sama form og ómskoðunarbreyturnar AoP og HPD svo hægt væri að bera þær saman. Þessar niðurstöður voru bornar saman ásamt samanburði á mælingum á útvíkkun legháls og stöðu hnakka. Samband fæðingarsvepps í ómskoðun við stöðu hnakka, fæðingarmáta og tímalengd fæðingar var einnig skoðað.
    Niðurstöður: Hver kona var skoðuð að meðatali 3,6 sinnum. Ómskoðun sýndi að meðaltali 17º stærra framgangshorn (AoP) en klínísk skoðun, eða sem nemur 2 cm mun, en þar gat munað allt að 50º (p-gildi < 0,001). Fjarlægð fósturhöfuðs frá spöng (HPD) mældist einnig marktækt neðar við ómskoðun þar sem 3,9% klínískra skoðana gaf í skyn að fósturhöfuð væri komið niður fyrir nibbuplan á meðan 31,4% ómskoðana gerði það (p-gildi < 0,001). Við fyrstu skoðun á stöðu hnakka fengust aðeins niðurstöður úr 31/99 klínískum skoðunum og þar af voru 45% rétt miðað við ómskoðunina en við síðustu skoðun fengust aðeins gildi úr 61/99 klínískum skoðunum og þar af voru 85% rétt. Þegar staða hnakka við skoðun var flokkuð sem framhöfuðstaða, hægri eða vinstri þverstaða og venjuleg hvirfilstaða leiddi samanburður á klínísku mati og ómskoðun í ljós marktækan mun (p-gildi < 0,001). Marktækt meiri útvíkkun legháls mældist við klínískt mat en við ómskoðun og var munurinn að meðaltali 2 cm en gat farið í allt að 4 cm (p-gildi < 0,001). Enginn marktækur munur var á stöðu hnakka (p-gildi = 1,0), fæðingarmáta (p-gildi = 0,4) og tímalengd fæðingar (p-gildi=0,07) eftir því hvort fæðingarsveppur var til staðar eða ekki.
    Ályktanir: Niðurstöður þessarar rannsóknar leiða í ljós talsverðan mun er varðar mat á framgangi fæðingar milli hefðbundinnar klínískrar skoðunar og mati með ómskoðun. Fósturhöfuð var almennt metið ofar í grind í klínískri skoðun miðað við við ómskoðun. Munur á mati á útvíkkun legháls var í samræmi við fyrri rannsóknir. Ekki fannst nein tenging milli fæðingarsvepps og annara breyta.

Styrktaraðili: 
  • Styrkur var veittur til leiðbeinanda sem hluti af doktorsverkefni og var frá Rannsóknarsjóði Íslands.
Samþykkt: 
  • 25.5.2020
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/35626


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Samanburður á klínísku mati og ómskoðun á frumbyrjum við fæðingu.pdf2.29 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna
Yfirlýsing.pdf386.85 kBLokaðurYfirlýsingPDF