is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/35633

Titill: 
  • Notkun geðrofslyfsins clozapine í meðferð á Laugarási meðferðargeðdeild
Námsstig: 
  • Bakkalár
Útdráttur: 
  • Inngangur: Geðrofslyfið clozapine er árangursríkasta lyfið við meðhöndlun meðferðarþrás geðklofa en um 30% einstaklinga með geðklofa hafa meðferðarþráan sjúkdóm. Vegna mögulegra aukaverkana er það aldrei notað sem fyrsta lyf. Alvarlegasta aukaverkunin, sem takmarkar notkun lyfsins mest er kyrningafæð sem kemur fram hjá einungis 0,68% þeirra sem taka lyfið. Settar hafa verið fram öryggisleiðbeiningar sem segja til um reglulegar mælingar á hvítum blóðkornum og daufkyrningum (e. neutrophil). Ef gildi þeirra verða of lág þarf að hætta lyfjagjöf samstundis. Algengari aukaverkanir eru meðal annars þyngdaraukning, aukin munnvatnsmyndun, þreyta og meltingarfæraeinkenni. Clozapine er talið vannýtt í meðferð meðferðarþrás geðklofa meðal annars vegna þessara aukaverkana.
    Meginmarkmið rannsóknarinnar var að skoða hlutfall sjúklinga á Laugarási meðferðargeðdeild sem hafa tekið lyfið clozapine síðastliðin 5 ár og reynslu þeirra af meðferðinni. Einnig var metið hvort farið hefði verið eftir leiðbeiningum um notkun lyfsins og reglulegar mælingar blóðhags.
    Efniviður og aðferðir: Þátttakendur rannsóknarinnar voru þeir 26 þjónustuþegar Laugarássins sem höfðu verið meðhöndlaðir með clozapine á árunum 2015-2020. Úr sjúkraskrám þeirra voru sótt gögn um greiningar, aukaverkanir og lyfjameðferðir. Sautján þeirra sem voru í þjónustu Laugarássins þegar rannsóknin var gerð var boðið að svara þremur spurningalistum; um lýðfræðilega þætti, GASS (Glasgow Antipsychotic Side-effect Scale) um aukaverkanir og BMQ (Beliefs about Medicines Questionnaire) um viðhorf til lyfja. Samþykktu 11 að taka þátt. BMQ hefur tvo undirhluta, „necessity“ sem snýr að mati einstaklinga á mikilvægi þess að taka lyf og „concerns“ sem snýr að áhyggjum fólks af því að þurfa að taka inn lyf. Gögn voru skráð í Excel og fór úrvinnsla fram í Excel og R.
    Niðurstöður: Karlar voru 80,8% þátttakenda rannsóknarinnar. Af 171 þjónustuþegum Laugarássins síðastliðin 5 ár hafa 26 (15,2%) notað clozapine. Þrír (11,5%) þeirra hættu vegna aukaverkana. Algengustu aukaverkanir sem fram komu í dagálum voru þyngdaraukning (76,9%), of mikil munnvatnsseytrun (65,4%) og syfja (42,3%). Við svörun GASS spurningalista um aukaverkanir clozapine töldust 77,8% þátttakenda með aukaverkanir ekki til staðar eða vægar og enginn með alvarlegar aukaverkanir. Við svörun BMQ spurningalista um viðhorf sjúklinga til geðrofslyfja var meðalstigafjöldi hærri í „necessity“ skalanum en „concerns“. Mikill breytileiki var á stigagjöf þátttakenda. Skoðuð voru geðrofslyf sem þátttakendur höfðu reynt áður en clozapinemeðferð var hafin og var meðaltalið 3,2 geðrofslyf. Leiðbeiningum um blóðmælingar var fylgt hjá öllum þátttakendum.
    Ályktanir: Niðurstöðurnar benda til þess að notkun ungs fólks á clozapine á Laugarásnum sé í samræmi við ráðleggingar sem á að fylgja á Íslandi. 15,2% þjónustuþega hafa notað clozapine síðastliðin 5 ár, sem bendir til að ekki sé tregða við að ávísa lyfinu við meðferðarþráum sjúkdómi. Fjöldi geðrofslyfja sem voru reynd fyrir ávísun clozapine var lægri en í sumum erlendum rannsóknum, sem bendir til að ekki sé beðið mjög lengi með að reyna lyfið. Aukaverkanir voru algengar hjá þátttakendum en almennt ekki alvarlegar. Stigagjöf fyrir BMQ skalann bendir til að almennt höfðu þátttakendur meiri skilning á mikilvægi lyfjanna en áhyggjur af notkun þeirra.

Samþykkt: 
  • 25.5.2020
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/35633


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
BS ritgerð - Sigrún Harpa Stefánsdóttir.pdf616.59 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna
sigrunharpa_yfirlysing.pdf596.12 kBLokaðurYfirlýsingPDF