is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/35635

Titill: 
 • Að takast á við kvíða og þróun foreldrahlutverks: Afleiðingar og mikilvægi stuðnings í heilbrigðiskerfinu
 • Titill er á ensku Coping with anxiety and the transition to parenthood: Consequences and the importance of support in the health care system
Námsstig: 
 • Bakkalár
Útdráttur: 
 • Það að eignast barn er ein stærsta breyting í lífi fólks sem almennt er talinn tími lífsfyllingar og gleði en nýja hlutverkinu getur fylgt aukið álag og streita. Þeir foreldrar sem eiga fyrri sögu um kvíðaeinkenni eða undirliggjandi kvíðaröskun eiga oft á tíðum erfiðara með að aðlagast þessu nýja hlutverki. Kvíði eftir fæðingu virðist vera algengur og hafa ýmsar kenningar verið settar fram til að skýra af hverju hann stafar. Hann hefur í för með sér neikvæðar afleiðingar á bæði einstaklinginn sem glímir við kvíðann og þá sem standa honum næst.
  Markmiðið með þessari fræðilegu samantekt er að kanna algengi kvíða eftir barnsburð, skoða hvaða þættir geti aukið líkur á að foreldrar þrói með sér kvíða eftir fæðingu barns og hvaða áhrif kvíði geti haft á barnið og tengslamyndun við það, parasambandið og aðlögun að foreldrahlutverkinu. Einnig verður skoðað hvernig hægt sé að styðja betur við foreldra með kvíða í þeirra aðlögun að foreldrahlutverkinu með úrræðum heilbrigðisþjónustunnar. Heimildaleit fór fram í gagnasöfnunum Pubmed, ScienceDirect, Web of Science, Cinhal og Google Scholar. Auk þess var notast við heimildir frá opinberum stofnunum. Í fyrstu var notast við ákveðin leitarorð við gagnasöfnun en síðar við snjóboltaðaferð. Eftir leit komu upp 94 greinar. Eftir flokkun og yfirlestur urðu eftir 33 rannsóknir sem voru nýttar í verkefnið og við að svara rannsóknarspurningum. Ásamt rannsóknum var stuðst við 4 nýlegar greinar sem eru kerfisbundnar og fræðilegar samantektir um efnið.
  Niðurstöður rannsókna benda allar í sömu átt að kvíði eftir fæðingu hefur ekki einungis neikvæð áhrif á móðurina sjálfa og aðlögun hennar að foreldrahlutverkinu heldur eru áhrifin einnig á barnið, tengslamyndun móður og barns, parsambandið og brjóstagjöf. Feður upplifa einnig kvíða eftir fæðingu og má álykta sem svo að áhrifin á barnið verði þau sömu óháð hvort foreldrið um ræðir. Helstu úrræði sem notuð eru samkvæmt rannsóknum eru hugræn atferlismeðferð (HAM) og lyfjameðferð. Einnig hefur núvitund, slökun og jóga sýnt fram á góðan árangur sem viðbótarmeðferð eða einar og sér. Konur kjósa almennt meðferð án lyfja þar sem lyf geta haft áhrif á barnið. HAM er því ákjósanleg sem fyrsta meðferð. Niðurstöður sýna einnig að stuðningur í heilbrigðiskerfinu er mjög mikilvægur fyrir foreldra og skimun á meðgöngu eða stuttu eftir fæðingu skiptir sköpum til að minnka líkur á alvarlegum afleiðingum.
  Lykilorð: Aðlögun að foreldrahlutverki, áhrif á barnið, hugræn atferlismeðferð, kvíði, nýbakaðir foreldrar, parasamband, stuðningur í heilbrigðiskerfinu, tengslamyndun.

Samþykkt: 
 • 25.5.2020
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/35635


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Að takast á við kvíða og þróun foreldrahlutverks - 4 maí rétt pdf .pdf607.8 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna
Yfirlýsing fyrir skemmuna.jpg244.86 kBLokaðurYfirlýsingJPG