is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/35636

Titill: 
 • Öndunarörðugleikar hjá börnum sem fæðast með valkeisaraskurði
Námsstig: 
 • Bakkalár
Útdráttur: 
 • Inngangur: Börn sem fæðast með valkeisaraskurði (VKS) eru í aukinni áhættu að fá öndunarörðugleika strax eftir fæðinguna. Í flestum tilfellum eru einkennin væg og tímabundin, en sum börn fá alvarlega öndunarörðugleika. Markmið þessarar rannsóknar var þríþætt. 1) Meta hvort barksteragjöf á meðgöngu til kvenna sem fæða með VKS við 37 vikur minnki nýgengi öndunarörðugleika hjá börnum. 2) Meta hvort munur sé á nýgengi og alvarleika öndunarfæravandamála eftir meðgöngulengd barna sem fæðast með valkeisaraskurði. 3) Meta hvort konum sem fæddu börn sem fengu öndunarörðugleika eftir fæðingu með VKS sé eiginlegt að ganga lengur með sín börn en aðrar konur.
  Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var afturskyggn og þýðið samanstóð af einburum sem fæddust með VKS eftir ≥ 37 vikna meðgöngu á kvennadeild Landspítala á árunum 2000 – 2019 (n=3501). Af þessum börnum voru 104 börn lögð inn á Vökudeild vegna öndunarörðugleika strax eftir fæðingu. Upplýsingar um barksteragjafir, meðgöngulengd og alvarleika öndunarfæravandamála fengust úr sjúkraskrám og Vökudeildaskrá. Viðmiðahópur fyrir rannsóknarspurningu 3 samanstóð af mæðrum barna sem fæddust með VKS eftir ≥ 37 vikna meðgöngu en fengu ekki öndunarörðugleika. Borin var saman meðgöngulengd systkina þeirra barna sem fæddust með VKS og fengu öndunarörðugleika strax eftir fæðingu annars vegar og systkina þeirra barna sem fæddust með VKS og fengu ekki öndunarörðugleika hins vegar.
  Niðurstöður: Marktæk aukning reyndist á gjöf barkstera við 37 vikna meðgöngu (37v0d – 37v6d) á tímabilinu (11% og 66%; p<0,0001). Börn þeirra kvenna sem fengu barkstera á meðgöngunni fengu síður öndunarörðugleika en þeirra sem ekki fengu barkstera (p=0,052; OR=0,31). Nýgengi öndunarörðugleika hjá börnunum var í öfugu hlutfalli við meðgöngulengd og hlutfallsleg áhætta á að fá alvarlegan lungnasjúkdóm (þörf fyrir súrefnis- og/eða aðra meðferð > 2 klst. eftir fæðingu) var 77% minni hjá nýburum sem fæddust ≥ 38 vikur en hjá þeim sem fæddust við 37 vikur. Konur sem fæddu börn með VKS sem fengu öndunarörðugleika stuttu eftir fæðingu voru líklegri til að fæða önnur börn sín seinna (40 – 42 vikur) eftir sjálfkrafa sótt eða vegna framköllunar fæðingar en konur sem fæddu börn með VKS sem fengu ekki öndunarörðugleika (64% og 47%; p=0,008).
  Ályktanir: Notkun barkstera til undirbúnings barns fyrir fæðingu með valkeisaraskurð við 37 vikur (37v0d – 37v6d) jókst marktækt á rannsóknartímabilinu og er vísbending um að hún minnki líkur á öndunarörðugleikum hjá börnum sem fæðast með VKS. Nýgengi og alvarleiki öndunarörðugleika hjá nýburum sem fæðast með VKS er í öfugu hlutfalli við meðgöngulengd. Hvort tveggja minnkaði marktækt hjá börnum sem fæddust eftir 37 vikna meðgöngu á rannsóknartímabilinu. Vísbendingar eru um að þeim konum, sem fæða börn sem fá öndunarörðugleika eftir VKS, sé eiginlegt að ganga lengur með sín börn en aðrar konur. Hugsanlega mætti því minnka líkur á öndunarörðugleikum hjá börnum þeirra með því að fresta VKS hjá þeim nær fullri meðgöngulengd, svo fremi sem aðstæður leyfa.

Samþykkt: 
 • 25.5.2020
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/35636


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
katrinHD_BSritgerd.pdf1.79 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna
Skemman_yfirlysing.pdf423.8 kBLokaðurYfirlýsingPDF