Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/35638
Inngangur: Hjartasjúkdómar eru oft meðhöndlaðir með þræðingartækni og ígræðslu lækningatækja en sýkingar í slíkum tækjum eru lífshættulegar. Sýkingarnar geta bæði átt rætur að rekja til aðgerðarinnar sjálfrar eða til blóðsýkingar sem síðan sest í íhlutinn. Ósæðarlokuþrengsl er hægt að laga með ísetningu á hjartaloku með þræðingartækni (TAVI) og takttruflanir eru gjarnan meðhöndlaðar með gangráðum (PM) eða bjargráðum (ICD). Markmið þessarar rannsóknar er að meta tíðni sýkinga eftir TAVI aðgerð og PM- og ICD- ísetningar og skipti á Landspítala. Jafnframt að kanna hvernig sjúklingar voru greindir, rannsakaðir og meðhöndlaðir.
Efniviður og aðferðir: Frá 1. janúar 2014 – 31. desember 2019 fóru 1892 sjúklingar í PM-aðgerð, 397 í ICD-aðgerð og 146 í TAVI ísetningu. Upplýsingum var safnað úr sjúkraskrám um aldur, kyn, BMI, dánartíðni og dánarorsök. Samverkandi þættir (undirliggjandi sjúkdómar og áhættuþættir tengdir aðgerð) og klínísk einkenni voru skoðuð. Upplýsingum um ræktanir og myndgreiningar var safnað. Sjúklingar voru flokkaðir eftir því hvernig sýkingu þeir fengu, hvar í samfélaginu þeir sýktust og tímalengd frá aðgerð að sýkingu.
Niðurstöður: Alls voru 20 PM-sjúklingar greindir með staðfesta sýkingu og tveir með mögulega. Sex ICD-sjúklingar voru greindir með staðfesta sýkingu og tveir með mögulega. Nýgengi sýkingar var 1,0% (PM) og 2,0% (ICD). Karlar voru í meirihluta sýktra (71% PM og 88% ICD). Meðalaldur hjá þeim sem sýktust var 75 (± 11,7) ár (PM) og 71 (± 11,3) ár (ICD). Helsti orsakavaldur var S.aureus (32%) (PM) og S.epidermidis (25%) (ICD). Sjúklingar fóru bæði í hjartaómun gegnum framvegg (TTE) og hjartaómun í gegnum vélinda (TEE) í 53% (PM) og 38% (ICD) tilvika. Hjá þeim sem sýktust voru vírar fjarlægðir í 57% (PM) og 75% (ICD) tilvika. Einn gangráðssjúklingur endursýktist. Dánartíðni sýktra var 31% (PM) og 13% (ICD).
Fimm sjúklingar sem fóru í TAVI aðgerð voru greindir með staðfesta sýkingu og tveir með mögulega. Nýgengið var 4,7% yfir skilgreint tímabil. Nýgengitíðnin var 2,5 tilfelli per 100 lokuár. Meirihluti sýktra voru karlmenn (71%). Meðalaldur var 80 (± 5,9) ár. Algengasti orsakavaldur var S. aureus (43%). Dánartíðni sýktra var 43%. Hjá þeim sjúklingum þar sem grunur lék á sýktri hjartaþelsbólgu eftir TAVI- aðgerð (PVE) var í aðeins 13% tilvika tekin þrjú sett eða fleiri í blóðræktun og aðeins 40% sjúklinga fóru bæði í TTE og TEE. Að meðaltali lágu sjúklingar inni í 38 daga og fóru í 2,3 hjartaómanir. Í 40% tilvika var blóðræktun ekki fullnægjandi til að nota fyrir breytt skilmerki Dukes að fullnustu.
Ályktanir: Nýgengi sýkinga eftir þræðingaraðgerðir hérlendis er sambærilegt við samanburðarlönd í öllum þremur aðgerðum. Nýgengitíðnin var hærri í öllum tilvikum nema fyrir fyrstu ísetningu (PM), þá var hún lægri. Ekki var hægt að draga marktækar ályktanir um undirliggjandi sjúkdóma, áhættuþætti tengda aðgerð og einkenni. Greining sýkinga eftir þræðingaraðgerðir er verulega ábótavant, sérstaklega þegar kemur að greiningu PVE. Eins og sjá má á dánartíðninni þá er um alvarlegar sýkingar að ræða og ljóst er að samræma þarf verklag til að bæta greiningu þeirra.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
gyda_BSritgerd.pdf | 5.47 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
Skemman_yfirlysing.pdf | 132.12 kB | Lokaður | Yfirlýsing |