is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/35641

Titill: 
  • Áhrif notkunar vankómýsíns og amínóglýkósíða hjá börnum á nýrnastarfsemi
Námsstig: 
  • Bakkalár
Útdráttur: 
  • Inngangur: Vankómýsín og amínóglýkósíð eru sýklalyf sem eru reglulega notuð hjá börnum sem meðferð við alvarlegum sýkingum. Eitrunaráhrifum hefur verið lýst af báðum þessum lyfjum og er bráður nýrnaskaði (BNS) algengastur. Ekki er vitað hvort notkun lyfjanna auki hættu á langvinnum nýrnasjúkdómi (LNS). Markmið rannsóknarinnar var að meta nýgengi bráðs nýrnaskaða og langvinns nýrnasjúkdóms hjá börnum eftir vankómýsín- og/eða amínóglýkósíðmeðferð.
    Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var afturskyggn og tók til allra sjúklinga Barnaspítala Hringsins utan nýburagjörgæslu sem fengu vankómýsín eða amínóglýkósíð frá 1. janúar 2012 til og með 31. desember 2019. Upplýsingar fengust úr rafrænu sjúkraskrárkerfi Landspítala. Notast var við skilgreiningu KDIGO (Kidney Disease: Improving Global Outcomes) við mat og flokkun BNS (og þurfti BNS að koma fram innan við 7 dögum eftir sýklalyfjagjöf. Við mat á LNS var notast við CKiD (Chronic Kidney Disease in Children) bedside jöfnuna til að ákvarða reiknaðan gaukulsíunarhraða.
    Niðurstöður: Á rannsóknartímabilinu fengu 470 einstaklingar vankómýsín eða amínóglýkósíð á Barnaspítala Hringsins. Af þeim fengu 72 (15,3%) BNS á tímabilinu, þar af 31 (43,1%) á stigi 1, 16 (22,2%) á stigi 2 og 25 (34,7%) á stigi 3. BNS gekk til baka innan þriggja mánaða hjá 77% sjúklinga. Tilfellum af BNS fækkaði og hlutfall BNS tilfella hjá þeim sem tóku rannsóknarlyfin lækkaði eftir því sem leið á rannsóknartímabilið. Meðalaldur þeirra sem fengu BNS (6,5 ár) var hærri en hjá sjúklingum sem fengu ekki BNS (3,8 ár). Meðferðarlengd og fjöldi skammta vankómýsíns var marktækt hærri hjá þeim einstaklingum sem fengu BNS (10,9 dagar og 33,6 skammtar) en hjá þeim sem ekki fengu BNS (3,9 dagar og 14,3 skammtar), p<0,003. Einnig reyndist meðferðarlengd og fjöldi skammta gentamísíns marktækt hærri hjá þeim einstaklingum sem fengu BNS (3,4 dagar og 7,0 skammtar) samanborið við þá sem fengu ekki BNS (1,8 dagar og 4,1 skammtur), p<0,001. Algengi undirliggjandi sjúkdóma og notkun annarra nýrnaskaðandi lyfja var hærra hjá sjúklingum með BNS. Enginn greindist með LNS eftir gjöf vankómýsíns eða amínóglýkósíða. Átta sjúklingar með þekktan LNS fengu þó vankómýsín eða amínóglýkósíð á rannsóknartímabilinu og einn þeirra fékk einnig BNS á tímabilinu eftir vankómýsíngjöf.
    Ályktanir: BNS tilfellum hjá börnum fækkaði á rannsóknartímabilinu sem tengdist færri vankómýsín- og/eða amínóglýkósíðmeðferðum. BNS virðist síður leggjast á yngstu börnin en algengi og alvarleiki BNS vex með hækkandi aldri. Notkun krabbameinslyfja, ACEi/ARB-hemla og NSAID lyfja virðast auka áhættu á BNS. Með gætilegu vali á þörf, nánu eftirliti með skömmtum og meðferðarlengd þessara sýklalyfja má minnka áhættu á BNS sem myndi án efa vera íslensku heilbrigðiskerfi til framdráttar.

Samþykkt: 
  • 25.5.2020
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/35641


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Áhrif notkunar vankómýsíns og amínóglýkósíða hjá börnum á nýrnastarfsemi.pdf3.77 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna
Yfirlýsing_hkj.pdf201.5 kBLokaðurYfirlýsingPDF