en English is Íslenska

Thesis (Bachelor's)

University of Iceland > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni - Heilbrigðisvísindasvið >

Please use this identifier to cite or link to this item: https://hdl.handle.net/1946/35644

Title: 
  • Title is in Icelandic Tíðni og áhættuþættir mikillar blæðingar eftir fæðingu einbura á Íslandi árin 2013-2018
Degree: 
  • Bachelor's
Abstract: 
  • Abstract is in Icelandic

    Inngangur: Blæðing eftir fæðingu er ein algengasta orsök mæðradauða í heiminum. Aukinni tíðni blæðingar eftir fæðingu hefur verið lýst víðsvegar á undanförnum árum. Samkvæmt skýrslum Fæðingaskráningar gæti slík aukning einnig hafa orðið á Landspítala, en tölur skýrslnanna byggðu á greiningarkóða (O72). Óljóst var hvort sams konar skilgreining var notuð til greininga á blæðingunum með kóðanum yfir allt tímabilið, en samkvæmt núverandi verklagi á Landspítala skal skrá greiningarkóðann O72 þegar magn blæðingar fer yfir 500 ml. Markmið rannsóknarinnar var að kanna tíðni blæðingar eftir fæðingu einbura á Íslandi á árunum 2013-2018 og varpa ljósi á áhættuþætti mikillar blæðingar eftir fæðingu sem skilgreind var sem 1000 ml blæðing eða meira.
    Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var ferilrannsókn sem náði til 23.375 einburafæðinga á árunum 2013-2018. Gögn fengust úr Fæðingaskrá og útkoma rannsóknarinnar, blæðing eftir fæðingu, var skilgreind annars vegar út frá skráðu magni blæðingar í millílítrum (ml) og hins vegar út frá ICD-10 greiningarkóðum. Gerð var tvíkosta aðhvarfsgreining til þess að reikna leiðrétt gagnlíkindahlutfall (OR) og 95% öryggisbil fyrir tíðni blæðingarmagns > 500 ml og mikillar blæðingar (≥ 1000 ml) á árunum 2014-2018 borið saman við árið 2013. Einnig voru tengsl áhættuþátta við mikla blæðingu eftir fæðingu metin með því að reikna óleiðrétt og leiðrétt OR og 95% öryggisbil fyrir hvern áhættuþátt.
    Niðurstöður: Tíðni blæðingar eftir fæðingu hækkaði á tímabilinu 2013-2018. Mikil aukning var á tíðni blæðingar þegar blæðing var skilgreind með greiningarkóðum en aukningin var minni þegar hún var skilgreind sem magn blæðingar yfir 500 ml og sem 1000 ml eða meira. Konur sem fæddu einbura árin 2017 (OR 1,39; ÖB 1,13-1,71) og 2018 (OR 1,38; ÖB 1,12-1,70) voru tæplega 40% líklegri til þess að blæða 1000 ml eða meira borið saman við konur sem fæddu árið 2013. Áhættuþættir sem reyndust hafa sterkustu tengslin við mikla blæðingu eftir fæðingu voru: Fylgjulos (OR 7,55; ÖB 4,46-12,36), fyrirsæt og/eða inngróin fylgja (OR 5,31; ÖB 3,14-8,58), þungburar (OR 2,32; ÖB 1,85-2,89), rifa hátt í leggöngum eða legháls (OR 5,17; ÖB 3,75-7,01), bráðakeisaraskurður (OR 2,83; ÖB 2,36-3,38) og 3. eða 4. gráðu spangarrifa (OR 2,70; ÖB 2,09-3,45).
    Ályktun: Tíðni blæðingar eftir fæðingu jókst á rannsóknartímanum bæði þegar skoðuð var tíðni blæðingarmagns > 500 ml og mikillar blæðingar. Lítið samræmi var á milli skráninga á greiningarkóðum annars vegar og skráðu magni blæðingar í millílítrum hins vegar og niðurstöður benda til þess að skráningu greiningarkóða fyrir blæðingar eftir fæðingu hafi verið ábótavant. Niðurstöður um áhættuþætti mikillar blæðingar eftir fæðingu voru að mestu í samræmi við erlendar rannsóknir.

Accepted: 
  • May 25, 2020
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/35644


Files in This Item:
Filename Size VisibilityDescriptionFormat 
karensolS_BSritgerd.pdf847.82 kBOpenComplete TextPDFView/Open
karensolS_yfirlysing.pdf183.93 kBLockedDeclaration of AccessPDF