Please use this identifier to cite or link to this item: https://hdl.handle.net/1946/35652
Inngangur
Miklar framfarir hafa orðið hér á landi á undanförnum áratugum varðandi heilsu og lifun ungbarna. Tíðni ungbarnadauða er einna lægst á Íslandi borið saman við önnur lönd á heimsvísu. Markmið rannsóknarinnar var að kanna tíðni og orsakir ungbarnadauða á 30 ára tímabili, frá 1989 til ársins 2018. Áhersla var lögð á að skoða breytingar á nýgengi andláta eftir orsökum þeirra. Tilgangurinn var að kanna hvort hægt væri að lækka dánartíðni íslenskra ungbarna enn frekar en þegar hefur náðst, en síðustu ár hefur nýgengi ungbarnadauða haldist í kringum 2 á hver 1.000 lifandi fædd börn.
Efni og aðferðir
Framkvæmd var afturskyggn og lýsandi rannsókn fyrir tímabilið 1989-2018. Gögnum var safnað frá Vökudeildarskrá, fæðingaskrá Embætti landlæknis, Hagstofu Íslands og Sögukerfinu. Teknar voru saman dánarorsakir, þær flokkaðar eftir ICD-10 í 11 flokka (m.a. burðarmálskvillar, fæðingargallar, vöggudauði) og sumum þeirra skipt í undirflokka. Nýgengi var reiknað sem fjöldi dauðsfalla á hver 1.000 lifandi fædd börn ár hvert og borið saman milli þriggja 10 ára tímabila (1989-1998, 1999-2008, 2009-2018).
Niðurstöður
412 börn létust á tímabilinu. Nýgengi ungbarnadauða á Íslandi lækkaði um 51,8% (p<0,001) milli fyrsta og annars þriðjungs rannsóknartímabilsins og hefur verið í kringum 2 börn á hver 1.000 fædd síðastliðinn áratug. Burðarmálskvillar sem dánarorsök lækkuðu mikið í nýgengi og heildarfjöldi tilfella voru 209, en 46 þeirra voru vegna fyrirburaskaps og vanþroska. Hækkun varð í nýgengi garnar- og ristilbólgu með drepi (NEC) og mest varð lækkun á fyrirburaandnauð. Fæðingargallar voru næst algengastir og meðfæddir hjartagallar flestir innan þess flokks. Nýgengi allra fæðingargalla lækkaði yfir tímabilið nema meðfæddra heilagalla, sem hækkaði. Nýgengi litningaþrístæðu sem dánarorsök dróst alveg saman á síðasta þriðjung tímabilsins. Nýgengi vöggudauða var hæst 1,47 en lægst 0 og heilt yfir tímabilið var lækkun ómarktæk.
Ályktanir
Marktæk lækkun hefur orðið á ungbarnadauða hér á landi síðustu þrjá áratugi og er nýgengið eitt það lægsta í heiminum. Erfitt er orðið að meta breytingar á nýgengi eftir dánarorsökum í ljósi þess hve lágt nýgengið er. Niðurstöður benda til að vert sé að fylgjast með nýgengi þeirra dánarorsaka sem hrjá einkum fyrirbura s.s. NEC. Framfarir í fósturskimun hefur vafalítið haft áhrif á fækkun dauðsfalla vegna fæðingargalla. Þrátt fyrir að hækkunin sem varð milli annars og þriðja þriðjungs rannsóknartímabilsins hafi verið ómarktæk er vert að fylgjast með þeirri þróun. Meðfram aukinni fósturskimun þarf alltaf að hafa í huga þá siðferðilegu umræðu um að útrýma ekki genabreytileika sem ekki er banvænn. Í framtíðinni mætti rannsaka betur raunverulegar orsakir þeirra andláta sem flokkast undir vöggudauða og skoða hvort fyrirbyggja megi slík dauðsföll. Ísland er greinilega verðugt fordæmi þegar kemur að lágum ungbarnadauða og áhugavert verður að fylgjast með breytingum sem gætu orðið hér á landi næstu ár og áratugi.
Filename | Size | Visibility | Description | Format | |
---|---|---|---|---|---|
heraBjorgJ_BSritgerd.pdf | 2,61 MB | Open | Complete Text | View/Open | |
HeraB_yfirlysing.pdf | 164,59 kB | Locked | Declaration of Access |