is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/35675

Titill: 
  • Notkun þorskroðs í meðferð fullþykktarbrunasára í dýramódeli
Námsstig: 
  • Bakkalár
Útdráttur: 
  • Inngangur: Meðhöndlun fullþykktarbrunasára getur falið í sér upphafsmeðferð með líkhúð eða annarskonar húðlíki (e. skin substitute) þar sem hlutþykktargræðlingur (e. split-thickness skin graft, STSG) er síðan settur á í framhaldinu. Þar sem engin þekkt örverusmit eru á milli Norður-Atlantshafsþorsksins (Gadus morhua) og mannsins þarf Kerecis sáraroð sem framleiddur er úr roði þorsksins ekki að ganga í gegnum viðamikla hreinsun sem meðal annars leysir upp fitu og fituleysanleg prótein. Þannig er hægt að halda í sömu mikilvægu sameindirnar og mynda húð manna. Að auki inniheldur sáraroðið hátt hlutfall ómega-3 fitusýra sem hefur sýnt hafa góð áhrif á sáragræðslu.
    Efniviður og aðferðir: Hundrað fullþykktarsár (3 cm í þvermál) voru gerð á bak og síðu fimm kvenkyns Yorkshire Cross svína (Sus scrofa). Sárum var slembiraðað (e. randomized) til meðferðar með; möskvuðu (1,5:1) Kerecis sáraroði (n=28), ómöskvuðu Kerecis sáraroði (n=30), líkhúð (n=20) eða engri sértækri meðferð (n=20). Á þriðja degi voru leifarnar af sáraroðinu fjarlægðar og þá fengu Kerecis meðhöndluðu sárin ýmist ómöskvaðan hlutþykktargræðling (n=19) eða möskvaðan (3:1) hlutþykktargræðling ásamt Kerecis sáraroði ofan á (n=29). Einn hópur af sárum fékk tilraunameðferð þar sem roðið var ekki fjarlægt áður en ómöskvaður hlutþykktargræðlingur var settur ofan á (n=10). Á degi fjórtán var líkhúð fjarlægð og settur ómöskvaður hlutþykktargræðlingur (n=20). Ljósmyndir voru teknar reglulega til að geta mælt samdrátt sára og vefjasýni voru tekin til að skoða byggingu og skipulag kollagens, uppbyggingu húðþekju og bólgufrumuíferð. Talnabreytur voru bornar saman með einþátta fervikagreiningu (e. one-way anova) og Tukey eftiráprófi, eða t-prófi eftir því sem við átti. Fyrir flokkabreytur var framkvæmt Fisher próf og Bonferroni leiðrétting. Tölfræðileg marktækni miðaðist við α = 5%.
    Niðurstöður: Enginn munur var á notagildi þess að meðhöndla með hefðbundinni Kerecis meðferð og að nota líkhúð sem tímabundna þekjumeðferð fullþykktarbrunasára, áður en sjálfsgræðlingur er settur á, hvort sem litið var á klíníska skoðun eða vefjasýna skoðun. Samdráttur í sárum var 30% ef engin sértæk meðferð var notuð miðað við 11-16% (p<0,001) ef notuð var sértæk meðferð. Tilraunameðferð með að setja hlutþykktargræðling á sár sem hafði enn roðið sýndi lakara skor á gæðum í byggingu kollagens ofarlega í sári, uppbyggingu húðþekju og skipulagi kollagens. Ekki reyndist vera munur á því hvort notað væri ómöskvað eða möskvað (1,5:1) Kerecis sáraroð sem tímabundin þekjumeðferð. Ekki reyndist heldur vera munur á því hvort notaður væri ómöskvaður eða möskvaður (3:1) hlutþykktargræðlingur sem seinni meðferð, ef Kerecis sáraroð var sett á þann möskvaða.
    Ályktun: Niðurstöður benda til þess að hægt sé að nota Kerecis sáraroð í stað líkhúðar við fyrstu meðferð alvarlegra brunasára. Enn fremur kemur fram að þegar Kerecis sáraroð er notað sem stuðningur við 3:1 hlutþykktargræðling er mögulegt að minnka það gjafasvæði sem þarf að taka af eðlilegri húð til að nota í sjálfsgræðslu fullþykktarbrunasára.

Samþykkt: 
  • 26.5.2020
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/35675


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
nikulasJ_BSritgerd.pdf2,41 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna
Yfirlysing_Skemman.pdf687,54 kBLokaðurYfirlýsingPDF