Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/35676
Inngangur: Míturlokuviðgerð er þriðja algengasta opna hjartaaðgerðin á Íslandi og er oftast gerð vegna leka gegnum lokuna. Míturlokuleka má flokka í starfrænan míturlokuleka og hrörnunartengdan leka. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna fjölda og árangur míturlokuviðgerða vegna hrörnunartengds leka með áherslu á fylgikvilla og langtímalifun.
Efni og aðferðir: Rannsóknin var afturskyggn og náði til 82 sjúklinga (meðalaldur 55 ár, 76% karlar) sem gengust undir míturlokuviðgerð vegna hrörnunartengds leka á Landspítala á tímabilinu 2004 – 2018. Upplýsingum var safnað úr sjúkraskrám m.a. um fylgikvilla, dvalartíma á gjörgæslu, heildarlegutíma og dauðsföll innan 30 daga. Farið var yfir snemmkomna (< 30 daga) fylgikvilla, bæði alvarlega og minniháttar og reiknuð 30 daga dánartíðni. Árlegur fjöldi aðgerða var aldursstaðlaður skv. upplýsingum frá Hagstofu og poisson-aðhvarfsgreining notuð til að meta breytingar á fjölda þeirra. Langtímalifun var áætluð með aðferð Kaplan-Meier. Miðgildi eftirfylgdartíma var 6 ár (bil: 0 – 15) og miðaðist við 31.desember 2018.
Niðurstöður: Að meðaltali voru gerðar 6 viðgerðir á ári (bil: 1-12). Algengi snemmkominna fylgikvilla var 65% og 30 daga dánartíðni 2,4%. Alvarlegir fylgikvillar greindust hjá 36,6% sjúklinga og var hjartadrep tengt aðgerð algengast (26,8%) og enduraðgerð vegna blæðingar næst algengast (8,5%). Minniháttar fylgikvillar greindust hjá rúmlega helming (56,1%) sjúklinga og var nýtilkomið gáttatif algengast (28,0%). Miðgildi dvalar á gjörgæslu var 1 [0,5] dagur og heildarlegutími 7 [0,16] dagar. Enginn sjúklingur þurfti að gangast undir enduraðgerð vegna endurkomu míturlokuleka á eftirfylgdartímabilinu. Mánuði eftir aðgerð var lifun 97,6% (95%-ÖB: 94,3-100) og einu ári eftir aðgerð var lifun 97,6% (95%-ÖB: 94,3-100), fimm árum eftir aðgerð var lifun 94,8% (95%-ÖB: 90,0-99,9) og eftir tíu ár 88,1% (95%-ÖB:78,3-99,1).
Ályktanir: Árangur míturlokuviðgerða vegna hrörnunartengds leka á Íslandi virðist hliðstæður árangri á stærri hjartaskurðdeildum erlendis. Almennt farnast sjúklingum vel, bæði með tilliti til fylgikvilla og langtímalifunar (95% fimm ára lifun). Tíðni enduraðgerða vegna endurkomu míturlokuleka er mjög lág en hafa verður í huga að miðgildi eftirfylgdar er enn aðeins sex ár.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Árangur míturlokuviðgerða vegna hrörnunartengds míturlokuleka á Íslandi 2004 - 2018.pdf | 2.88 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
Skemman_yfirlysing(1).pdf | 57.34 kB | Lokaður | Yfirlýsing |