is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/35679

Titill: 
 • Langtímaáhrif flótta og hælisleitunar á geðheilbrigði barna og unglinga
Námsstig: 
 • Bakkalár
Útdráttur: 
 • Bakgrunnur: Helmingur flóttamanna heimsins eru börn undir átján ára aldri, en margvíslegar ástæður kunna að liggja að baki því að börn neyðist til að flýja heimalönd sín. Börn á flótta leita alþjóðlegrar verndar í ókunnugum löndum í von um betra líf, en alls hafa 620 börn sótt um alþjóðlega vernd á Íslandi frá árinu 2017. Flótti og hælisleitun er langt og flókið ferli þar sem börn eru útsett fyrir ofbeldi og öðrum áföllum. Ýmsar hindranir og áskoranir mæta þessum börnum svo í móttökulandi þar sem þau þurfa að aðlagast ókunnugum aðstæðum.
  Markmið: Að greina og samþætta þá þekkingu sem til er um áhrif flótta og/eða hælisleitunar á geðheilbrigði barna og unglinga. Tilgangurinn var að kanna hvort flótti og/eða hælisleitun hefði neikvæð áhrif á geðheilbrigði barna og unglinga, að hvaða leyti og hver tíðni geðraskana hjá þessum hópi væri þegar til lengri tíma væri litið.
  Aðferðir: Kerfisbundin fræðileg samantekt. Rannsókna var leitað í gagnagrunni PubMed.
  Niðurstöður: Áhrif flótta og hælisleitunar birtist í lakara geðheilbrigði barna og unglinga og í mörgum tilfellum var vandinn langvinnur. Um eitt af hverjum þremur börnum glímdi við langvinnan kvíða og allt að helmingur barnanna glímdi við langvinna áfallastreituröskun. Rannsóknarniðurstöður sýndu einnig fram á að um eitt til tvö af hverjum tíu börnum og unglingum fengu síðkomna áfallastreituröskun. Marktæk lækkun varð á þunglyndiseinkennum með tímanum. Fjöldi áfalla hafði marktæk neikvæð áhrif á geðheilbrigði hópsins sem og aldur og kyn. Félagslegur stuðningur, félagslegar aðstæður og staða hælisumsóknar voru einnig þættir sem höfðu áhrif á geðheilbrigði hælisleitandi barna og unglinga.
  Ályktun: Hjúkrunarfræðingar eru oft fyrstu heilbrigðisstarfsmenn sem þessi hópur barna hittir og mikilvægt er að þeir séu vel í stakk búnir við móttöku þeirra. Auka þarf við fræðslu og menntun hjúkrunarfræðinga á sviði menningarnæmrar hjúkrunar og málefnum hælisleitandi barna og unglinga. Þannig gætu hjúkrunarfræðingar dregið úr eða komið í veg fyrir skaða sem hælisleitandi börn og unglingar geta hlotið af geðröskunum sem ljóst er að fylgi flótta og hælisleitun. Þörf er á frekari rannsóknum á efninu innan hjúkrunarfræðinnar hér á landi.
  Lykilorð: Börn, unglingar, flóttamaður, hælisleitandi, geðheilbrigði, geðsjúkdómar.

Samþykkt: 
 • 26.5.2020
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/35679


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Langtímaáhrif flótta og hælisleitunar á geðheilbrigði barna og unglinga .pdf561.21 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna
Yfirlýsing.pdf267.71 kBLokaðurYfirlýsingPDF