is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/35682

Titill: 
 • Fyrirburablóðleysi og blóðgjafir á Vökudeild Barnaspítala Hringsins árin 2000-2019
Námsstig: 
 • Bakkalár
Útdráttur: 
 • Inngangur: Allir nýburar fá lífeðlisfræðilegt blóðleysi fljótlega eftir fæðingu vegna aðlögunar þeirra að súrefnisríku umhverfi utan móðurkviðar. Venjulega þarfnast slíkt blóðleysi ekki meðferðar. Stöðnun á blóðmyndun fyrirbura varir lengur en hjá fullburum vegna vanþroska í blóðmyndunarkerfi þeirra og er slíkt blóðleysi skilgreint sem fyrirburablóðleysi (e. anemia of prematurity, AOP). Veikir fyrirburar þola blóðleysið oft illa en það er sá hópur sjúklinga sem fær hvað oftast blóðgjafir. Markmið rannsóknarinnar var að meta 1) nýgengi AOP sem leiddi til meðferðar á Íslandi sl. 20 ár, 2) forspárþætti AOP sem leiddi til meðferðar, 3) við hvaða aldur fyrirburar (e. postmenstrual age, PMA) þurfa ekki lengur á blóðgjöf að halda við AOP, 4) viðmiðunargildi fyrir blóðgjafir þeirra, 5) breytingar á meðferð við AOP síðastliðin tíu ár með því að kanna breytingar á fjölda blóðgjafa fyrir hvern fyrirbura, aldur þeirra við síðustu blóðgjöf og viðmiðunargildi í blóði fyrir blóðgjöf og 6) helstu sjúkdóma sem tengjast blóðgjöfum fyrirbura.
  Efni og aðferðir: Afturskyggn rannsókn, að hluta til tilfella-viðmiðarannsókn á árunum 2000-2019. Þýði rannsóknarinnar voru 901 fyrirburi sem fæddust við 23-32 vikna meðgöngu og útskrifuðust lifandi af Vökudeild. Upplýsingar fengust úr Vökudeildaskrá, Fæðingaskrá embætti landlæknis og sjúkraskrám. Tilfelli af AOP sem leiddi til meðferðar var skilgreint sem fyrirburi sem fékk blóðgjöf eftir 14 daga aldur. Viðmið voru þeir fyrirburar sem fengu enga blóðgjöf eftir þann aldur. Parað var eftir meðgöngulengd (1:1) þegar metnar voru breytingar á nýgengi AOP. Gerð var tvíkosta aðhvarfsgreining og reiknuð gagnlíkindahlutföll (OR) ásamt 95% öryggisbil (CI) til að meta breytingar á nýgengi AOP og til að meta hugsanlega forspárþætti AOP . Notuð var línuleg aðhvarfsgreining til að meta PMA barna (meðgöngulengd + aldur barns) við síðustu blóðgjöf við AOP og meta viðmiðunargildi fyrir blóðgjöf eftir meðgöngulengd. Gerð var tvíkosta aðhvarfsgreining og reiknuð leiðrétt OR ásamt 95% CI til að meta breytingar á meðferð við AOP milli undirtímabila og tengsl helstu sjúkdóma fyrirbura við blóðgjafir.
  Niðurstöður: Nýgengi AOP sem meðhöndlað var með blóðgjöf hækkaði úr 27,1 á árunum 2000- 2009 og í 43,6 á árunum 2010-2019 (p<0,001, OR: 2,0). Allir 23-25 vikna fyrirburar og 91,2% fyrirbura með fæðingarþyngd <1000 g fengu blóðgjöf vegna AOP. Meðgöngulengd ≤28 vikur (p<0,001, OR: 4,5), fæðingarþyngd <1000 g (p<0,001, OR: 30,1) og Apgar <7 við 1.mín (p<0,05, OR: 1,8) voru meðal forspárþátta AOP sem leiddi til meðferðar. Miðgildi PMA við síðustu blóðgjöf í vikum var 34 hjá 23-28 vikna fyrirburum, 36 hjá 29-30 vikna fyrirburum og 37 hjá 31-32 vikna fyrirburum. Línulegt samband var á milli viðmiðunargilda og meðgöngulengdar (p<0,001). Fleiri 29-32 vikna fyrirburar fengu AOP sem leiddi til meðferðar á árunum 2010-2019 (p<0,001, OR: 4,8) en árin 2000-2009, ásamt því að vera eldri við síðustu blóðgjöf (p=0,045) og fjöldi blóðgjafa á barn var meiri (p=0,034) en ekki reyndist marktækur munur á viðmiðunargildum í blóði fyrir blóðgjöf milli undirtímabila. Glærhimnusjúkdómur (p=0,003, OR: 1,9) og langvinnur lungnasjúkdómur (p<0,001, OR: 3,1) sýndu marktækni í fjölþáttagreiningu.
  Ályktanir: Aukning hefur orðið á blóðgjöfum við AOP á Íslandi síðustu 10 ár sem má einkum rekja til þess að fleiri 29-32 vikna fyrirburar fá blóðgjöf, hver 29-32 vikna fyrirburi fær fleiri blóðgjafir auk þess sem þeir eru eldri við síðustu blóðgjöf. Styttri meðganga, lægri fæðingarþyngd og lágur Apgar við einnar mínútu aldur voru sjálfstæðir forspárþættir fyrir blóðgjöf vegna AOP. Ekki liggja fyrir óyggjandi niðurstöður á því við hvaða aldur börn þurfa ekki lengur á blóðgjöf að halda vegna AOP.

Samþykkt: 
 • 26.5.2020
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/35682


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
soleyH_BSritgerd.pdf3.56 MBLokaður til...08.06.2023HeildartextiPDF
Skemman_yfirlysing.pdf141.64 kBLokaðurYfirlýsingPDF