is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/35688

Titill: 
 • Brjóstagjöf kvenna af erlendum uppruna: Hefur uppruni áhrif á tíðni og lengd brjóstagjafar?
 • Titill er á ensku Breastfeeding of migrant mothers: Does origin affect the frequency and duration of breastfeeding?
Námsstig: 
 • Bakkalár
Útdráttur: 
 • Bakgrunnur: Erlendum einstaklingum fer fjölgandi á Íslandi og má áætla að hluti þeirra eignist börnin sín hér á landi og þurfi því að nýta sér heilbrigðisþjónustu tengda barneignarferlinu. Brjóstagjöf er einn af lykilþáttum í barneignarferlinu, en meðferð og þjónusta tengd brjóstagjöf getur verið mismunandi eftir skipulagi heilbrigðisþjónustunnar og menningu hvers samfélags. Brjóstagjöfin sjálf getur verið mismunandi milli ólíkra menningarhópa þar sem viðhorf til brjóstagjafar eru gjarnan ólík eftir því hvaðan fólk kemur. Fáar rannsóknir hafa verið birtar um hvernig mismunandi uppruni getur haft áhrif á brjóstagjöf en gerðar hafa verið rannsóknir erlendis í tengslum við efnið. Með því að skoða þær rannsóknir er hægt að fá hugmynd um hvort það hafi áhrif á brjóstagjöf að vera erlend móðir í nýju landi en niðurstöðurnar má nýta til þess að skapa umræður og styrkja þjónustuna á Íslandi.
  Tilgangur: Tilgangurinn er að kanna hvort munur sé á tíðni og lengd brjóstagjafar kvenna af erlendum uppruna samanborið við innfæddar konur. Auk þess er tilgangurinn að kanna hvernig hjúkrunarfræðingar og ljósmæður geta stutt við brjóstagjöf kvenna af erlendum uppruna.
  Aðferð: Ritgerðin er byggð á fræðilegri samantekt og er til B.S. prófs í hjúkrunarfræði. Gerð var kerfisbundin leit í gagnagrunninum PubMed í leit að rannsóknum sem gerðar hafa verið á brjóstagjöf kvenna af erlendum uppuna, ásamt þeim greinum sem fjalla um heilbrigðisstarfsfólk sem sinnir konum af erlendum uppruna í barneignarferlinu. Inntökuskilyrði voru m.a. að greinarnar hefðu komið út á árunum 2010-2020, væru skrifaðar á ensku og hefðu fullan aðgang. Við greiningu á heimildum var stuðst við PRISMA flæðirit.
  Niðurstöður: Tíðni og lengd brjóstagjafar kvenna af erlendum uppruna er misjöfn eftir því frá hvaða löndum konurnar koma upprunalega og þeim viðhorfum sem ríkja um brjóstagjöf bæði í upprunalandi sem og í nýju landi. Þá skiptir máli í hvaða landi verið er að kanna tíðni og lengd brjóstagjafar kvenna af erlendum uppruna, þ.e. hvernig innlendi hópurinn er samsettur. Einnig leiddi samantektin í ljós að flutningur mæðra getur haft mikil áhrif á útkomu brjóstagjafar, sem getur orðið slakari því lengur sem þær hafa dvalið í nýju landi. Hjúkrunarfræðingar og ljósmæður spila stórt hlutverk í að veita stuðning og hafa þannig áhrif á útkomu brjóstagjafar. Jafnframt þarf íslenskt heilbrigðisstarfsfólk að taka mið af menningarlegum þáttum kvenna af erlendum uppruna til að veita sem bestan stuðning við brjóstagjöf þeirra.
  Ályktanir af niðurstöðum: Lítið af rannsóknum eru til um brjóstagjöf kvenna af erlendum uppruna. Áhugavert væri að framkvæmdar yrðu stærri rannsóknir og þá einna helst þar sem úrtökin væru stærri til að endurspegla betur þýðið og auka yfirsýn yfir viðfangsefnið. Þá er nauðsynlegt að framkvæma rannsóknir í hverju menningarsamfélagi fyrir sig þar sem hópur kvenna af erlendum uppruna er mismunandi samsettur eftir samfélögum. Flestar rannsóknirnar sem notast var við voru framkvæmdar í vestrænum löndum ásamt því að mæðurnar komu frá ýmsum löndum og þ.a.l. með mismunandi menningarbakgrunn. Niðurstöður samantektarinnar endurspegla því ekki allan hóp kvenna af erlendum uppruna, en samantektin veitir þó innsýn inn í þær áskoranir sem þær standa frammi fyrir í tengslum við brjóstagjöf í öðru landi. Mikilvægt er fyrir heilbrigðisstarfsfólk á Íslandi að veita konum af erlendum uppruna sem oft á tíðum hafa lítið bakland, góðan stuðning og nýta þau úrræði sem eru í boði.
  Lykilorð: Brjóstagjöf, erlendar mæður, konur af erlendum uppruna, stuðningur við brjóstagjöf, hlutverk heilbrigðisstarfsfólks.

Samþykkt: 
 • 26.5.2020
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/35688


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
lokaritgerðskemman.pdf827.88 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna
yfirlýsingboga.jpg244.5 kBLokaðurYfirlýsingJPG