is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/35689

Titill: 
 • Gæðaskráning vélindakrabbameina á Íslandi 2012-2019. Samanburður milli tímabila og við gæðaskráningu í Svíþjóð.
Námsstig: 
 • Bakkalár
Útdráttur: 
 • Inngangur: Vélindakrabbamein er alvarlegur sjúkdómur með slæmar horfur. Tvær algengustu vefjagerðirnar eru kirtilmyndandi mein og flöguþekjumein. Vélindakrabbamein eru algengari meðal karla en kvenna. Helsta læknandi meðferð felst í brottnámi meinanna en aðgerðunum fylgir hætta á alvarlegum fylgikvillum. Rannsóknin var liður í að koma á fót gæðaskráningu á greiningu og meðferð vélindakrabbameina á Íslandi fyrir árin 2012-2019. Markmið rannsóknarinnar var að sjá hvort munur væri á greiningu og meðferð vélindakrabbameina á Íslandi milli tveggja tímabila og á milli Íslands og Svíþjóðar.
  Efniviður og aðferðir: Rannsóknin náði til allra sem fengu ICD-10 greiningu C15 eða C16.0.A,B og X árin 2012-2019 á Íslandi. Sjúklingalisti og grunnupplýsingar um sjúklinga fengust frá Krabbameinsskrá. Upplýsingar um greiningu og meðferð voru sóttar í sjúkraskrá og færðar í eyðublöð sem finna má í Heilsugátt. Sérstaklega voru skoðaðar vélindabrottnámsaðgerðir og fylgikvillar þeirra. Samanburður var gerður milli tímabilanna 2012-2015 og 2016-2019 á Íslandi og á milli Íslands og Svíþjóðar. Við samanburð var notast við skýrslu sem aðgengileg er á heimasíðu sænsku gæðaskráningarinnar. Upplýsingar voru settar fram með lýsandi tölfræði og samanburður var gerður með kí-kvaðrat prófi, munur taldist marktækur ef P<0,05.
  Niðurstöður: Ekki var marktækur munur á nýgengi skipt eftir tímabilum, 96 greindust á því fyrra en 112 á því seinna. Kirtilmyndandi mein (62%) voru um tvöfalt algengari en flöguþekjumein (32%). Ekki var greinilegur munur á vefjagerð eftir tímabilum. Klíníska stigun sjúkdóms vantaði hjá 23% sjúklinga á Íslandi en 9% í Svíþjóð (2014-2018) (P<0,001). Á Íslandi var hærra hlutfall sjúklinga tekið fyrir á samráðsfundum á seinna tímabilinu (88%) en því fyrra (63%) (P<0,001). Árið 2019 voru allir sjúklingar sem greindust með vélindakrabbamein teknir fyrir á samráðsfundi. Hærra hlutfall sjúklinga fékk krabbameinsmeðferð í líknandi skyni á seinna tímabilinu (46%) en því fyrra (24%) (P<0,001). Á Íslandi voru 25% sjúklinga með leka eða drep í samtengingu innan 30 daga frá aðgerð en 15% í Svíþjóð (2014-2018) (P=0,03). Lungnabólga innan 30 daga frá aðgerð var einnig algengari á Íslandi (33%) en í Svíþjóð (15%) (P<0,001). Enginn munur var á 90 daga aðgerðadauða, sem var rúm 7%, á milli landanna. Lifunarlíkur sjúklinga á Íslandi 3 árum eftir greiningu voru um 28% (95% öryggisbil, 22-35%) sem er sambærilegt við lifun sænskra sjúklinga með vélindakrabbamein.
  Ályktun: Ekki varð markverð breyting á nýgengi eða gerð vélindakrabbameina á Íslandi yfir rannsóknartímabilið. Vel hefur tekist til við að innleiða samráðsfundi. Sjúklingar voru líklegri til að fá krabbameinsmeðferð í líknandi skyni á seinna tímabilinu. Kannski skýrist það að hluta af aukinni notkun jáeindaskanna með tilkomu slíks á Landspítala og að meinvörp greinist þá frekar. Vélindakrabbamein voru síður sjúkdómsstiguð á Íslandi en í Svíþjóð. Æskilegt væri að stiga hærra hlutfall hérlendis. Sumar niðurstöður benda til meiri fylgikvilla innan 30 daga frá aðgerð á Íslandi en í Svíþjóð. Breytileiki í skráningu fylgikvilla milli landanna er líklega nokkur. Í ljósi þess að enginn munur var á 90 daga aðgerðadauða verður að teljast ólíklegt að mikill munur sé á alvarlegum fylgikvillum. Horfur sjúklinga á Íslandi sem greinast með vélindakrabbamein voru svipaðar horfum sjúklinga í Svíþjóð.

Samþykkt: 
 • 26.5.2020
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/35689


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Gæðaskráning vélindakrabbameina á Íslandi 2012-2019. Samanburður milli tímabila og við gæðaskráningu í Svíþjóð.pdf8.86 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna
Skemman_yfirlysing.pdf316.76 kBLokaðurYfirlýsingPDF