is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/35700

Titill: 
  • Kortlagning valbjögunar: Munur á skimuðu og tilviljanagreindu forstigi mergæxlis
Námsstig: 
  • Bakkalár
Útdráttur: 
  • Inngangur: Góðkynja einstofna mótefnahækkun (MGUS) er einkennalaust ástand sem er til staðar í um 5% einstaklinga yfir 40 ára. MGUS greinist venjulega fyrir tilviljun þegar einstaklingar sækja heilbrigðisþjónustu vegna annarra, ótengdra heilsufarskvilla. Af þeim sökum hafa flestar rannsóknir á MGUS verið framkvæmdar á þýði sem hugsanlegt er að, vegna valbjögunar, hafi innihaldið fleiri einstaklinga með önnur heilsufarsvandamál en aðrir einstaklingar með MGUS. Mögulegt er að þessi valbjögun skekki mynd okkar af MGUS en það hefur hingað til ekki verið rannsakað. Þessi rannsókn er fyrsta rannsóknin þar sem leitast er við að kortleggja þessa valbjögun með því að bera saman einstaklinga með tilviljanagreint MGUS og þá sem eru með MGUS greint í skipulagðri skimun en markmið hennar er að lýsa muninum á milli þessara tveggja hópa með tilliti til lýðfræðilegra einkenna, MGUS tengdra breyta og fylgisjúkdóma.
    Efniviður og aðferðir: Rannsóknin byggir á gögnum rannsóknarinnar Blóðskimun til bjargar, lýðgrundaðri skimunarrannsókn fyrir MGUS á Íslandi, sem hófst árið 2016 (ClinicalTrials.gov nr. NCT03327597). Upplýsingar um þátttakendur með áður þekkt, tilviljanagreint MGUS voru fengnar úr gögnum frá Læknasetrinu og rannsóknarstofum Landspítala. Upplýsingar um fæðingarár, kyn og búsetu þátttakenda voru fengnar úr þjóðskrá og magn og mótefnagerð M-próteins og hlutfall léttra keðja í sermi mælt í skimunarrannsókninni. Þá voru upplýsingar um fylgisjúkdóma þátttakenda fengnar úr skrám heilbrigðisstofnana. T-próf og kí-kvadrat próf voru notuð til að meta mun á aldri, kyni og búsetu milli þátttakenda með tilviljanagreint MGUS og þeirra sem voru með áður óþekkt forstig. Línuleg aðhvarfsgreining var notuð til að bera saman magn M-próteins og fjölda fylgisjúkdóma milli sömu hópa. Tvíkosta aðhvarfsgreining var notuð til að meta mun milli mótefnaflokka M-próteina, tíðni afbrigðilegs hlutfalls léttra keðja og tíðni sérstakra fylgisjúkdóma.
    Niðurstöður: Rannsóknarþýðið samanstóð af 1.891 einstaklingum með MGUS greint í Blóðskimun til bjargar, þar af 110 (5,8%) með áður þekkt, tilviljanagreint MGUS, 1.533 (81,1%) með áður óþekkt þung-keðju MGUS og 248 með áður óþekkt létt-keðju MGUS. Ekki fannst marktækur munur á aldri, kyni eða búsetu þátttakenda milli hópa. Þátttakendur með áður þekkt MGUS voru að meðaltali með 0,74 g/L hærri styrk M-próteins í sermi (2,57 g/L og 2,24 g/L), samanborið við þá þátttakendur sem voru með áður óþekkt þung-keðju MGUS (95% öb: 0,11-1,37, p-gildi: 0,02). Munur milli hópa á öðrum þáttum hvað varða eiginleika forstigsins var ómarktækur. Þá voru þátttakendur með áður þekkt MGUS með marktækt fleiri fylgisjúkdóma en þeir sem voru með áður óþekkt þung-keðju MGUS (∆: 0,67, 95% öb: 0,29-1,06, p-gildi <0,001) og var munurinn marktækur meðal gigtsjúkdóma, krabbameina, langvinnra nýrnasjúkdóma, innkirtlasjúkdóma og taugasjúkdóma.
    Ályktanir: Niðurstöður þessarar rannsóknar benda til þess að einstaklingar með tilviljanagreint MGUS hafi fleiri fylgisjúkdóma en þeir einstaklingar sem eru með MGUS greint í skimun. Þær gefa einnig til kynna að valbjögun hafi skekkt fyrri rannsóknir á MGUS og sýna að nauðsynlegt er að rannsaka tengsl MGUS við sjúkdóma í skimuðu MGUS þýði.

Samþykkt: 
  • 26.5.2020
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/35700


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
adalbjorgS_yfirlysing.pdf278,69 kBLokaðurYfirlýsingPDF
adalbjorgS_BSritgerd.pdf704,52 kBLokaður til...25.05.2025HeildartextiPDF