is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/35715

Titill: 
  • Samfelld þjónusta ljósmæðra: Ávinningur og áhætta: Fræðileg samantekt
  • Titill er á ensku Continuity of midwifery care: Advantage and risk: A systematic review
Námsstig: 
  • Bakkalár
Útdráttur: 
  • Samfelld þjónusta ljósmæðra hefur mikið verið skoðuð undanfarin ár ásamt öðrum þjónustuformum. Mikið hefur verið skoðað hvaða þjónustuform barnshafandi konur og mæður kjósa helst og hvaða þættir þjónustunnar þeim finnast mikilvægir. Samfelld þjónusta hefur verið skilgreind á marga vegu en algengasta skilgreiningin er að þjónustan sé heildræn og veitt af sem fæstum fagaðilum og að þjónustan sé veitt innan sömu stofnunar með skipulagi og góðum samskiptum. Gæði þjónustu endurspeglast í ánægju þjónustuþega og hvernig þeim farnast. Algengast er að þjónustan sé samfelld hér á landi í gegnum meðgönguvernd og heimaþjónustu í sængurlegu en þá er fæðingin sjálf undanskilin. Í einhverjum tilfellum, eins og í fæðingarstofunni Björkin og á landsbyggðinni, hefur náðst nánast alger samfella. Tilgangur samantektarinnar var að varpa ljósi á hvernig samfelld þjónusta hefur gengið á Íslandi og voru önnur lönd notuð sem viðmið. Tilgangurinn var að skoða hvort samfelld þjónusta sé ákjósanlegasta þjónustuformið eða hvort önnur form henti betur. Skoðað var hvað barnshafandi konur og mæður vilja helst en einnig hvað ljósmæðrum finnst. Reynt var að svara rannsóknarspurningunni: „Hefur samfelld þjónusta áhrif á gæði þjónustunnar í barneignarferlinu?“.
    Notaður var leitarvefurinn Pubmed með leitarorðunum “continuity of care”, “midwifery”, “caseload”, “models of care”, “perinatal” og “quality”. Til að finna íslenskar greinar og rannsóknir var leitarvefurinn leitir.is notaður og leitarorðin „samfelld þjónusta“ og „ljósmóðurfræði“. Bókin “Midwifery Continuity of Care” (2. útgáfa) var mikið notuð. Tekið var viðtal við ljósmóður sem starfar á Björkinni til að fá innsýn í þeirra störf og skoðun þeirra á samfelldri þjónustu í barneignarferlinu. Góð þjónusta fyrir barnshafandi konur, nýorðnar mæður og börnin þeirra skiptir gríðarlega miklu máli fyrir útkomu bæði móður og barns. Rannsóknir sýndu að barnshafandi konur og nýorðnar mæður vildu hafa samfellu í þjónustunni og töldu það mikilvægan þátt. Þeim fannst mikilvægast að fá góðar upplýsingar um allt ferlið og að hlustað væri á þeirra skoðanir og þarfir. Ljósmæðrum fannst samfelld þjónusta vera lykilþáttur í góðri þjónustu. Sýnt hefur verið fram á að þjónustan getur komið vel út fjárhagslega. Komið hafa upp efasemdir meðal ljósmæðra, til dæmis um bindingu við starf, en rannsóknir hafa leitt í ljós að í raun eru minni líkur á kulnun í starfi hjá ljósmæðrum sem starfa í samfelldri þjónustu. Hægt er að álykta að samfelld þjónusta eykur gæði þjónustunnar og bætir útkomu móður og barns, starfsánægja ljósmæðra eykst og líkur á kulnun í starfi minnka. Skortur er á íslenskum samanburðarrannsóknum á þeim konum sem hljóta samfellda þjónustu og þeim sem hljóta hefðbundna þjónustu. Flestar rannsóknirnar útiloka áhættumeðgöngur og erfiðar fæðingar sem enda í bráðakeisara og því er hægt að álykta að það sé vanræktur hópur sem vert sé að rannsaka nánar.

Samþykkt: 
  • 27.5.2020
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/35715


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
BS-lokaverkefni pdf loka.pdf545.18 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna
yfirlysing undirritud.pdf53.12 kBLokaðurYfirlýsingPDF