Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/3572
Rannsóknin fjallar um færni skipstjóra á íslenskum fiskiskipum. Markmiðið með henni er að kanna hvaða færni skipstjórar þurfa að búa yfir og með hvaða hætti þeir þróa raunfærni sína til að takast á við skipstjórastarfið og hvort breyting hafi orðið á þessu síðustu þrjá áratugina.
Með raunfærni er átt við sambland af þekkingu, færni og getu eða viðhorfum sem einstaklingur þarf að búa yfir til að geta sinnt starfi sínu á árangursríkan hátt.
Leitað var svara við því í hverju störf skipstjóra felast, hvaða færni liggur þar að baki og hvernig þeir sem sinna skipstjórn fara að því að læra starfið. Leitað var eftir því hvaða áhrif vinnuumhverfið hefur í þessu sambandi og hvaða afleiðingum breytingar á því hafa valdið.
Eigindlegri rannsóknaraðferð var beitt og átta manna úrtak valið með snjóboltaaðferð úr hópi skipstjóra á íslenskum fiskiskipum sem almennt er talið að hafi gengið vel í starfi.
Helstu niðurstöður rannsóknarinnar eru þær að skipstjórar byggja upp færni sína í starfi að miklu leyti með reynslunámi sem á sér stað í vinnuumhverfinu. Fjölbreyttar lærdómsleiðir eru nýttar við þekkingarsköpunina en drifkrafturinn í því að afla sér tilskilinnar þekkingar og færni virðist vera þeirra eigin áhugi.
Mikil ábyrgð virðist öðru fremur einkenna skipstjórastarfið og það kallar á margs konar færni og þekkingu sem snertir tæki, veiðarfæri og annan búnað. Þó viðfangsefni skipstjóra séu í grunninn þau sömu síðustu þrjá áratugina, að fiska og sjá til þess að áhöfn og skip komist heil í höfn, þá hafa tækniframfarir breytt færnikröfum til skipstjórnar talsvert. Þrátt fyrir þetta virðist reynslunám enn sú leið sem helst er farin við að þróa færni skipstjóra. Metnaður skipstjóranna, sterkt tengslanet og tækniframfarir styðja við þekkingarsköpun og hafa áhrif á mótun vinnuumhverfisins.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Færni skipstjóra á ísl fiskiskipum_fixed.pdf | 901.59 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |