is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/35769

Titill: 
 • Notkun immúnóglóbúlína á Landspítala 2010-2019
Námsstig: 
 • Bakkalár
Útdráttur: 
 • Inngangur: Immúnóglóbúlínmeðferð er sannreynd og mikilvæg meðferð við mótefnaskorti og ákveðnum bólgu- og sjálfnæmissjúkdómum. Framleiðsla lyfsins er flókin og kostnaðarsöm, og með vaxandi notkun þess hefur borið á skorti á lyfinu á heimsvísu. Því er mikilvægt að meðferð sé beitt eftir læknisfræðilegum ábendingum og er lyfið því leyfisskylt hér á landi. Meginmarkmið þessarar rannsóknar var að meta notkun immúnóglóbúlína á Landspítalanum á árunum 2010-2019.
  Efniviður og aðferðir: Samþykktar leyfisumsóknir sjúklinga sem fengu immúnóglóbúlínmeðferð 2010-2019 voru yfirfarnar. Fengnar voru upplýsingar um aldur, kyn, tegund lyfs, ábendingar og sérgreinar lækna sem ávísuðu meðferð. Einnig var upplýsingum um einstakar lyfjagjafir á dag- og göngudeildum safnað. Útlagður lyfjakostnaður var fenginn úr gagnagrunni Sjúkrahúsapóteks Landspítala.
  Niðurstöður: Á tímabilinu fékk 921 einstaklingur immúnóglóbúlínmeðferð á Landspítalanum. 861 fékk meðferð í æð, 26 fengu gjöf undir húð og 34 fengu bæði. Af 921 meðferð voru 667 með skráðar ábendingar (72,4%), 245 óskráðar og óljósar ábendingar voru 9. Algengustu sjúkdómsflokkar allra ábendinga voru ónæmisbrestir, taugasjúkdómar og krabbamein. Lungnalæknar og ofnæmis- og ónæmislæknar ávísuðu lyfinu mest. Algengasta ábending fyrir meðferðinni á tímabilinu var áunninn mótefnaskortur, hjá 23% einstaklinga. Fjöldi einstaklinga sem fengu samþykkta leyfisumsókn á ári jókst um 350% og fjöldi lyfjagjafa á ári jókst um 296% á tímabilinu og var marktækur munur á milli ára. Útlagður lyfjakostnaður, leiðréttur fyrir verðlagi, jókst úr 300 í 638 milljónir á ári á tímabilinu.
  Ályktanir: Notkun immúnóglóbúlína á Landspítalanum fer vaxandi. Hlutfall notkunar eftir skráðum ábendingum er svipað og í niðurstöðum fyrri rannsóknar sem bendir til árangurs verklags við leyfisveitingar. Þó er ljóst að skráningu er ábótavant, sérstaklega er varðar árangursmat meðferðar, og þörf er á skýrum meðferðarleiðbeiningum. Immúnóglóbúlínmeðferð er árangursrík en hún er takmörkuð auðlind. Innleiðing meðferðarleiðbeininga auk árangurs- og lífsgæðamats gæti leitt til bættrar útkomu meðferðarmarkmiða auk þess að nýtast til frekari vísindarannsókna í tengslum við notkun mótefna í lækningaskyni.

Samþykkt: 
 • 2.6.2020
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/35769


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Notkun immúnóglóbúlína á Landspítala 2010-2019.pdf2.23 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna
Skemman-Yfirlýsing.pdf813.46 kBLokaðurYfirlýsingPDF