is Íslenska en English

Lokaverkefni (Diplóma meistara)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > Kandídatsritgerðir >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/35823

Titill: 
 • Reynsla kvenna af tvíburameðgöngu með áherslu á sálræna líðan og stuðning ljósmæðra
Námsstig: 
 • Diplóma meistara
Útdráttur: 
 • Fjölburameðgöngum hefur fjölgað undanfarin ár þar sem þróunin hefur orðið sú að fleiri þungaðar konur eru eldri en áður var. Aðgengi kvenna að úrræðum til að verða barnshafandi hefur aukist og fleiri konur notfæra sér þau. Hlutverk ljósmæðra eru margvísleg þegar kemur að umönnun barnshafandi kvenna. Aukin hætta er á fylgikvillum hjá konum og börnum þegar um tvíburameðgöngu er að ræða og getur slík áhætta haft veruleg áhrif á sálræna líðan kvennanna samanborið við konur sem ganga með einbura. Því er mikilvægt að ljósmæður skimi fyrir einkennum kvíða og þunglyndis svo hægt sé að veita þeim tilfinningalegan stuðning og viðeigandi meðferðarúrræði strax í upphafi meðgöngu og eftir fæðingu tvíburanna, með tilliti til sálrænna þarfa þeirra.
  Markmið þessa verkefnis var að gera fræðilega samantekt um reynslu kvenna af eineggja tvíburameðgöngu með áherslu á sálræna líðan og stuðning ljósmæðra. Auk þess var tilgangur þess að skoða sálræna líðan þeirra eftir fæðingu og þau mælitæki sem hægt er að styðjast við til að meta einkenni þunglyndis og kvíða á meðgöngu og eftir fæðingu.
  Fræðilegar rannsóknir og greinar voru notaðar við gerð verkefnisins en einnig var notast við eigindlega aðferðafræði þar sem viðtöl voru tekin við tvær íslenskar konur. Þær voru báðar á fertugsaldri og höfðu gengið með og átt eineggja tvíbura á árunum 2017 og 2020. Áhersla var lögð á að skoða hvaða áhrif tvíburameðganga hefur á sálræna líðan kvennanna og hvaða aðferðir ljósmæður hafa til að greina einkenni þunglyndis og kvíða á meðgöngu og eftir fæðingu. Niðurstöður viðtalanna voru að lokum borin saman við niðurstöður fræðilegu samantektarinnar og fléttuð saman í umræðukafla verkefnisins.
  Niðurstöður verkefnis leiddu í ljós að konur sem ganga með tvíbura eru í aukinni hættu á að upplifa einkenni þunglyndis og kvíða meðal annars vegna umönnunar tvíburanna eða samskipta við maka og þurfa þessar konur sérstaklega á stuðningi að halda bæði á meðgöngu og eftir fæðingu frá ljósmóður og nánustu aðstandendum. Einnig kom fram að engar sérstakar aðferðir eða mælitæki virðast hafa verið þróuð til að meta sálræna líðan tvíburakvenna eða úrræði sem sérstaklega eru ætluð þeim.
  Í meðgöngueftirliti þessara kvenna hefur áherslan aðallega verið á þá líkamlegu fylgikvilla sem upp geta komið á meðgöngu og fáar rannsóknir hafa verið gerðar sem kannað hafa sálræna líðan þessara kvenna. Út frá niðurstöðum þessarar rannsóknar má álykta að frekari rannsókna sé þörf á sálrænni líðan tvíburaforeldra ásamt skimun og meðferð sem gæti nýst vel í starfi ljósmæðra og annars heilbrigðisstarfsfólks sem sinna tvíburakonum.
  Leitarorð: upplifun (e. experience), tvíburameðganga (e. twin pregnancy), fjölburameðganga (e. multiple pregnancy), þunglyndi (e. depression), sálræn líðan (e. psychological health), ljósmóðir (e. midwife).

Samþykkt: 
 • 4.6.2020
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/35823


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Reynsla kvenna af tvíburameðgöngu með áherslu á sálræna líðan og stuðning ljósmæðra.pdf631.73 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna
IMG_20200501_172331.jpg2.48 MBLokaðurYfirlýsingJPG