is Íslenska en English

Lokaverkefni (Diplóma meistara)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > Kandídatsritgerðir >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/35868

Titill: 
 • Áhrif hreyfingar og uppréttra stellinga hjá hraustum frumbyrjum á fyrsta stigi fæðingar
Námsstig: 
 • Diplóma meistara
Útdráttur: 
 • Miklar breytingar hafa orðið í gegnum aldirnar varðandi hvaða stellingar konur nota til að fæða börn sín. Fyrir meira en 100 árum síðan voru flestar konur í uppréttum stellingum í fæðingu. Þetta átti þó eftir að breytast þar sem með tíð og tíma var talið heppilegast að konur lægju upp í rúmi, í fyrstu aðeins á öðru stigi fæðingar en með tímanum þróaðist það einnig yfir á fyrsta stig fæðingar. Allt frá seinni hluta 17. aldar hafa þó margir fræðimenn bent á þá ókosti sem liggjandi staða konunnar getur haft á eðlilegt fæðingarferli. Lítið hefur verið gert úr slíkum ábendingum í gegnum tíðina og enn þann dag í dag er útafliggjandi stelling sú vinsælasta í fæðingum í hinum vestræna heimi.
  Meginmarkmið þessarar fræðilegu samantektar var að skoða árangur hreyfingar og uppréttra stellinga hjá hraustum frumbyrjum á fyrsta stigi fæðingar. Rannsóknir síðustu ára hafa sýnt fram á nokkra jákvæða þætti samhliða hreyfingu og uppréttra stellinga kvenna í fæðingu, meðal annars; styttra fyrsta stig fæðingar, aukið blóðflæði til fylgju og fósturs, betri samdrættir og minni verkir. Auk þess getur hreyfing og uppréttar stellingar á fyrsta stigi fæðingar auðveldað barninu að skorða sig ofan í mjaðmagrind móður til að það nái hagstæðari snúning á leið sinni í heiminn jafnframt því að upplifun kvenna af fæðingarferlinu er yfirleitt betri. Þá er mikilvægt að ljósmæður styðji við og virkji konur í að finna sér góðar stöður á meðan á fæðingu stendur til stuðla að eðlilegu ferli fæðingarinnar.
  Viðurkenna þarf ýmsar hindranir í fæðingu til að kona geti nýtt sér lífeðlisfræðilegar stellingar. Aukin sjúkdómsvæðing eðlilegrar fæðingar, áhrif fæðingarumhverfis, lítil þekking heilbrigðisstarfsmanna og skortur á fræðslu til skjólstæðinga á áhrifum hreyfingar og uppréttra stellinga eru allt þættir sem hafa þar áhrif. Þá hafa aukin inngrip, líkt og örvun með oxýtósín, síritun fósturhjartsláttar og notkun mænurótardeyfingar einnig haft sitt að segja þar sem þau geta með einum eða öðrum hætti komið í veg fyrir að kona geti hreyft sig óhindrað í fæðingu. Huga þarf að þessum hindrunum til að stuðla að betri fæðingarupplifun móður og betri útkomu fyrir bæði móður og barn.
  Lykilorð: Hreyfing, uppréttar stellingar, fyrsta stig fæðingar, frumbyrjur, eðlileg fæðing og ljósmóðurfræði.

Samþykkt: 
 • 4.6.2020
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/35868


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Lokaverkefni_kandidatsprof_ljosmodurfr._Katrín_Helga_Steinthorsdottir_Lokaeintak.pdf317.92 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna
Yfirlýsing.jpg1.74 MBLokaðurYfirlýsingJPG