Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/35869
Tengsl tekna við hamingju hafa verið viðfangsefni margra rannsókna í sálfræði og hagfræði. Margt er þó enn óljóst um tengslin og deilt hefur verið um eðli þeirra. Breytingar á íslensku samfélagi, þá sérstaklega í kringum efnahagshrunið árið 2008, veita tilvalið tækifæri til að skoða hvaða áhrif efnahagsbreytingar hafa á tengsl tekna við hamingju og lífsánægju. Markmið þessarar rannsóknar var að gera yfirlit yfir tengsl heimilistekna við hamingju og lífsánægju Íslendinga. Búist var við að tengslin haldist ekki stöðug á milli ára vegna breytilegs efnahagsástands og að tengslin hafi verið veikari fyrir hrun en eftir það, meðal annars vegna aðgengis að lánsfé. Notast var við mælingar frá tímabilinu 1999 til 2018 sem fengust frá Félagsvísindastofnun Íslands og Embætti Landlæknis. Athuguð var hrein fylgni heimilistekna við mælingar á hamingju og lífsánægju. Niðurstöður sýndu að tengsl tekna við hamingju og lífsánægju var veik í öllum tilvikum. Tengslin hafa verið nokkuð stöðug á milli ára en þó má greina mynstur í gögnunum sem fylgja þyrfti eftir með annars konar greiningu. Engar áberandi breytingar komu fram í kringum hrunið en tengsl tekna við bæði hamingju og lífsánægju voru sterkust árið 2016.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Fanney_Heidrun_BSverkefni_Tekjur_hamingja.pdf | 1,23 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
Yfirlysing.pdf | 14,24 kB | Lokaður | Yfirlýsing |