Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/3593
Ritgerð þessi byggir á eigindlegri rannsókn um framkvæmd laga um jafnréttisfræðslu í íslenskum grunnskólum. Markmið rannsóknarinnar var að finna hvað veldur því að það lagaákvæði skilar sér almennt ekki út í skólana. Ferlið frá lögum að grunnskólum var skoðað á eftirfarandi hátt: Forsenda – Ákvörðun – Framkvæmd – Niðurstaða. Forsenda þess að löggjafinn ákvað að lögbinda jafnréttisfræðslu í skólum, ákvörðun löggjafans um slíka löggjöf, hvort og þá hvernig þau lög eru framkvæmd í menntamálaráðuneyti, grunnskólum og kennaraháskólum, og niðurstöður um hvaða þættir koma í veg fyrir að þetta ferli gangi óhindrað fyrir sig.
Gagna var aflað með orðræðu- og innihaldsgreiningu á íslenskum lögum, umræðum á Alþingi og ýmsum þingskjölum, aðalnámskrá grunnskóla og kennsluskrá kennaranáms í íslenskum háskólum. Viðtöl voru tekin við starfsmenn menntamálaráðuneytis, háskóla, grunnskólastigs og jafnréttisstarfs. Fyrirspurnir voru einnig sendar til menntamálaráðuneytis og tveggja háskóla. Þá voru gerðar þátttökuathuganir á fundum kennara um jafnréttisfræðslu og í kennslustundum í jafnréttisfræðslu. Þátttakendur voru valdir út frá starfsvettvangi, hlutverk þeirra var að veita upplýsingar um stjórnsýslu og málsmeðferð í þessu opinbera ferli.
Meginniðurstöður voru að lagabókstafurinn dugir ekki til. Ósamræmi er í lögum um skólakerfi, sér í lagi varðandi ábyrgðaraðila fyrir framkvæmd ákvæðis um jafnréttisfræðslu. Markmið í lögum og stefnumörkun skólakerfisins varðandi jafnréttisfræðslu eru óskýr, orðalag loðið og óljóst, og því háð túlkun hverju sinni. Lögin skilgreina ekki jafnréttisfræðslu og kveða ekki á um hvernig hana skuli útfæra, hverju hún eigi að skila, eða hvernig tryggja skuli að hún fari fram.
Áhugaleysi um að framkvæma lögin, kynblinda og ótti við femínisma virðast valda því að lagaákvæði um jafnréttisfræðslu skila sér sjaldan til grunnskóla. Í ferlinu frá lögum að skólastofu koma margir þættir við sögu, á öllum þrepum ferlisins má finna vissar hindranir í að lagaákvæðinu sé sinnt, svo víða þarf að taka til hendinni eigi þetta ákvæði ekki að vera dauður lagabókstafur.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
forsidu_fixed.pdf | 1.05 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |