is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Landbúnaðarháskóli Íslands > Ræktun og fæða > B.S. verkefni >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/36041

Titill: 
 • Erfðabreytileiki í ASIP geninu í íslensku sauðfé
Námsstig: 
 • Bakkalár
Leiðbeinandi: 
Útdráttur: 
 • Íslenska sauðfjárkynið býr yfir miklum litabreytileika en meðal markmiða íslenskra stjórnvalda og bænda er að standa vörð um íslenska sauðaliti og þau litamynstur sem í stofninum finnast. Ljóst þykir að mörg gen hafi áhrif á lit og litamynstur sauðfjár og jafnframt að áhrif þeirra hvert á annað geti reynst flókin.
  Talið er að agouti signaling protein genið ASIP sé megináhrifavaldur við ákvörðun grunnlitar í sauðfé. Talið er að ríkjandi samsætan Awt valdi hvítu/gulu. Jafnframt er talið að samsæturnar Ab, At og Ag, sem sagðar eru jafnríkjandi, valdi golsóttu, botnóttu og gráu; loks veldur víkjandi samsætan Aa svörtu og leyfir mórautt. Þekkt er að ASIP genið á í samspili við genið MC1R og að samsætur hvors gens um sig geti verið í yfirstöðu yfir hinu. Loks eru teikn á lofti um fjölvirkni ASIP gensins, en það er talið geta tengst bæði lita- og atferlisbreytileika.
  Til að varpa ljósi á breytileika í táknröðum ASIP gensins voru útraðir þess raðgreindar í tíu völdum kindum af íslenska sauðfjárkyninu. Raðgreindu gripirnir voru bornir saman við viðmiðunargen úr opnum gagnagrunni UCSC (UCSC_oviAri4 NM_001134303) til að athuga hvort erfðabreytileika væri þar að finna.
  Tveir mögulegir einbasabreytileikar (c.255G>C og c.376T>A) og ein möguleg 5 basapara úrfelling (c.100-105delAGGAA) fundust innan opna lesramma gensins ásamt tveimur mögulegum einbasabreytileikum utan útraða. Umrædd úrfelling er líklega sú sama og greinst hefur í erlendum sauðfjárkynjum. Líklegt er að c.255G>C og c.376T>A séu einnig af sama meiði og stökkbreytingar sem fundist hafa í erlendum kynjum. Tvær stökkbreytinganna (c.100-105delAGGAA og c.376T>A) hafa áhrif á umritun amínósýra og virðast báðar tengjast víkjandi dökkum grunnlit í íslensku sauðfé. Mórauðar og móflekkóttar kindur virtust bera 5 basapara úrfellinguna í arfhreinu ástandi. Svartar kindur virðast bera úrfellinguna og einbasabreytileikann saman í arfblendnu ástandi. Gráa kindin í úrtakinu virðist bera úrfellinguna í arfblendnu ástandi og svartflekkóttar kindur virðast bera einbasabreytileikann í arfhreinu ástandi. Hvítar kindur virtust ýmist arfblendnar fyrir einbasabreytileikanum eða arfhreinar án breytileika. Niðurstöður stemma við erlendar rannsóknir að því leyti að téðar stökkbreytingar virðast tengjast víkjandi dökkum lit, ásamt því að ekki virðist fullt samræmi á milli arfgerða og svipgerða. Niðurstöðurnar vekja því upp spurningar um frekari breytileika tengdan ASIP geninu í íslensku sauðfé.

Samþykkt: 
 • 10.6.2020
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/36041


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
BS lokaritgerð_Teitur Sævarsson.pdf648.23 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna