Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/36042
Kjúklingaframleiðsla er hvað mest vaxandi landbúnaðargreinin í heiminum. Með vaxandi eftirspurn eftir alifuglakjöti er valið fyrir einstaklingum fugla sem hafa mikinn vaxtarhraða. Með vali á fuglum sem eru hagkvæmir í framleiðslu á kjúklingakjöti eykur það líkurnar á hegðunar- og lífeðlisfræðilegum vandamálum í eldinu. Einnig verða fuglarnir viðkvæmari fyrir ýmsum sjúkdómum sem geta komið illa niður á holdakjúklingum í eldi. Sá hænsnastofn sem notaður er í dag við ræktun holdakjúklinga á Íslandi er Ross 308 og stofnarnir Lohmann LSL og Lohmann LB eru notaðir sem varphænustofnar.
Hérlendis hafa nokkrir sjúkdómar skotið upp kollinum í kjúklingaeldi í gegnum árin þrátt fyrir að Ísland hafi einstaka sjúkdómsstöðu í húsdýrum. Þeir sjúkdómar sem komið hafa upp eru: kjúklingasótt (e. pullorum disease – Salmonella pullorum), hníslasótt (Coccidiosis – Eimeria spp.), Salmonella (S. Enteritidis og S. Typhimurium), kampýlóbakter (e. campylobacter), hænsnalömun (e. Marek‘s disease). Þeir nýjustu á þessum lista eru innlyksa lifrarbólga (e. inclusion body hepatitis) og smitandi sjúkdómur í búrsu (e. infectious bursal disease) (IBD).
Þann 23. ágúst 2019 tilkynnti Matvælastofnun tilfelli á tveimur sjúkdómum í kjúklingum á Jarlsstöðum í Landsveit sem ekki höfðu áður valdið vandræðum í kjúklingaeldi hér á landi. Um var að ræða veirusjúkdóma; smitandi sjúkdóm í búrsu (e. infectious bursal disease - IBD) og innlyksa lifrarbólgu (e. inclusion body hepatitis – IBH). Þekkt er erlendis að þegar innlyksa lifrarbólga kemur upp í fuglahópi er smitandi sjúkdómur í búrsu undirliggjandi vandamál.
Matvælastofnun fór því af stað með aðgerðaráætlun samkvæmt lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim nr. 25/1993 til að uppræta sjúkdóminn. Hún fól í sér þrif á eldishúsum, sótthreinsun, hvíld á húsum og að lokum bólusetning á öllum fuglum sem færu í húsin.
Blóðvatnssýni voru tekin úr bólusettum ungum til að sjá hvort að aðgerðir Matvælastofnunar hafi borið árangur í að útrýma veirunni hér á landi. Niðurstöður voru afgerandi; engir fuglar sem settir voru í húsin eftir þrif, sótthreinsun og bólusetningu unga smituðust af IBD-veiru.
Virðist sem að aðgerðaráætlun Matvælastofnunar hafi borið erindi sem erfiði.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
BS_verkefni_ThorunnDis.pdf | 1,42 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |