Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/36043
Vindur getur haft mikil áhrif vöxt og þroska trjáa og annars gróðurs, bæði með beinu áreiti á plöntuvefi og í gegn um þau áhrif sem hann hefur á aðra nærviðrisþætti, eins og lofthita, jarðvegshita, yfirborðshita plantna, rakastig, o.fl. Lítið hefur verið birt hérlendis af niðurstöðum mælinga á samverkandi áhrifum vinds og hita og plöntuvaxtar. Rannsóknaverkefni um þessa þætti var sett upp í Fljótshlíð, Rangárvallasýslu, sumarið 2016.
Markmið verkefnisins var að skoða samspil vindhraða og hitastigs og plöntuvaxtar, með því að mæla vindhraða, hitastig í 10 og 200 cm hæð og í jarðvegi yfir eitt vaxtartímabil, sem og vöxt ungra birkiplantna sem gróðursettar voru í staðlaðan jarðveg á þremur mismikið skýldum meðferðastöðum innan afmarkaðs svæðis með sama veðurfari. Svæði 1 var á óskýldum berangri (viðmið), Svæði 2 var með skjólbeltum á tvær hliðar (norður og vestur en opið til austurs- og suðurs), og Svæði 3 var í mjög miklu skjóli innan þétts skjólbeltakerfis. Til að meta bein áhrif vindslits fór einnig fram samanburður á mælingu slitflagga á sömu stöðum en yfir lengra tímabil.
Skjólmeðferðirnar drógu martækt úr meðal- og hámarksvindhraða (t-próf: p<0,001) á skýldum stöðum miðað við berangur. Meðaltöl hitastigs yfir rannsóknatímabilið voru einnig marktækt hærri á skýldu svæðunum en á óskýldu svæði (t-próf: p<0,01). Dagshiti í 200 cm hæð var 0,6 °C hærri í miklu skjóli en á berangi, en 1,6 °C hærri í 10 cm hæð frá yfirborði, og 1,1 °C hærri á 10 cm dýpi í jarðvegi.
Laufflatarmál (LA) birkisins að hausti var orðið marktækt meira (t-próf: p<0,001) á báðum skýldu svæðunum miðað við óskýlda svæðið, eða 1,8 sinnum meira (81,7%) á svæði Svæði 2 og 2,2 sinnum meira (123,4%) á svæði Svæði 3 miðað við Svæði 1. Mæling á lífmassa birkiplantna á meðferðasvæðunum þremur sýndi jafnframt að skjólið hafði aukið vöxtinn marktækt (t-próf, p<0,001) á báðum skýldu svæðunum miðað við Svæði 1. Lífmassi í sumarlok vað að jafnaði 71,8% meiri á svæði Svæði 2 og 78,5% meiri á svæði Svæði 3 miðað við svæði Svæði 1. Einnig var hlutfallslega meira af heildarlífmassa trjánna varið til rótarvaxtar á skjóllausu á berangri en á skýldum svæðum sem gerði muninn í ofanjarðarvexti birkisins enn meiri en þegar heildarlífmassi var borinn saman.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Hallur_BSverkefni_LbhI.pdf | 1,15 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |