Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/36056
Hagsaga Íslands síðustu 100 ára hefur einkennst af takmörkunum á utanríkisviðskipti í formi gjaldeyrishafta. Haftastefnan hófst árið 1931 sem neyðarúrræði við kreppunni miklu og voru höftin ekki afnumin fyrr en rúmum sex árutugum síðar. Íslendingar endurnýjuðu þó kynni sín við höft fremur skjótt enda voru þau innleidd á nýjan leik árið 2008 eftir hið fordæmalausa efnahagsáfall sem dundi á þjóðinni við fall bankanna. Þrátt fyrir að seinni haftasetningin hafi upphaflega verið skammtímalausn til að sporna við miklu útflæði fjármagns og hruni íslensku krónunnar voru þau ekki afnumin að mestu fyrr en árið 2017 þegar stjórnvöldum hafði loks tekist að leysa færsluvandann sem þau glímt höfðu við frá hruni.
Almennt teljast gjaldeyrishöft ekki til hefðbundinna aðgerða við hagstjórn enda getur einangrun ríkja verið sjálfskaparvíti. Framþróun síðustu áratuga hefur meðal annars náðst með auknum milliríkjaviðskiptum og hafa tímabil viðskiptafrelsis skilað af sér blómlegra efnahags- og atvinnulífi. Því er óhætt að fullyrða að almenn samstaða sé á meðal fræðimanna um skaðsemi hafta, sama hvort þau séu á fjármagn eða vöru og þjónustu. Hins vegar geta gjaldeyrishöft sem takmarka frjálst flæði fjármagns reynst nauðsynleg við tilteknar aðstæður líkt og saga Íslands hefur sýnt fram á.
Í þessari ritgerð er markmiðið að lýsa sögu gjaldeyrishafta sem þjóðhagsvarúðartæki stjórnvalda við efnahagsáföll hér á landi ásamt því að skoðuð er möguleg upptaka hafta á nýjan leik. Hér mun setning, afnám og áhrif fyrri gjaldeyrishafta verða greind og að einhverju leyti sett í samhengi við þá efnahagsvá sem Íslendingar standa nú frammi fyrir af völdum kórónuveirufaraldursins.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
B.Sc. Ritgerð_Gjaldeyrishöft.pdf | 868,28 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |