Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/36065
Þessi rannsókn felst í því að athuga hvort þekkt aðferð sem notuð hefur verið við staðarvalsgreiningar,til að mynda flokkun landbúnaðarlands erlendis, hentar íslenskum aðstæðum. Aðferðin
kallast GIS based Multi Criteria Decision Analysis (MCDA) og á íslensku kallast hún fjölþátta ákvarðanagreining í landupplýsingakerfi (LUK). Aðferðin felst í því að skilgreind eru svo kölluð viðmið, sem eru þættir sem geta annars vegar haft áhrif á ræktun svæðis og hins vegar útilokað svæði frá ræktun. Viðmiðunum er skipt upp í áhrifaþætti og takmarkanir. Þeir áhrifaþættir sem skoðaðir verða eru vistgerðir, jarðvegsgerðir, landhalli, hæð yfir sjó og daggráður. Takmarkanir eru
þau viðmið sem útiloka ræktun á viðkomandi svæði, m.a. núverandi landnotkun eins og þéttbýli og helstu stofn- og tengivegir sem og mikill landhalli, jöklar, ár og vötn. Áhrifaþættir hafa mismikil áhrif á ræktun lands og hafa mismikið vægi fyrir hentugleika svæða til ræktunar. Til að úthluta áhrifaþáttum vægi verður notuð aðferð sem kallast Analytical Hierarchy Process (AHP) og áhrifaþættir bornir saman með pöruðum samanburði (e. Pairwise Comparison). Að því loknu verða áhrifaþættir lagðir saman með yfirlagnaraðferð (e. Overlay) sem framkvæmd verður með rasta reiknivél í ArcMAP 10.5 hugbúnaðinum sem verður notaður til kortagerðar og framsetningar á niðurstöðum rannsóknarinnar.
Flokkun landbúnaðarlands er fremur skammt á veg komin hér á landi, en aðeins 9 sveitarfélög af 72 hafa látið flokka landbúnaðarland innan sinna marka. Eitt af fyrstu sveitarfélögunum sem lét flokka landbúnaðarland var Rangárþing eystra árið 2013, en þá var allt land sveitarfélagsins flokkað í fjóra flokka þar sem flokkur I er besta landið og flokkur IV það lakasta. Sú aðferð sem beitt var við flokkunina fólst einkum í mati á landi út frá loftmynd, hallakortum og hæð yfir sjó auk þess sem land var metið sjónrænt á vettvangi. Þar var einkum horft til áferðar lands, grýtni og grunnvatnsstöðu.
Niðurstöður flokkunarinnar gáfu til kynna að innan marka sveitarfélagsins væru rúmlega 62 þúsund ha af góðu ræktanlegu landi (Steinsholt sf., 2013).
Markmið rannsóknarinnar er að skoða hvort unnt sé að nota fjölþátta ákvarðanagreiningu í landupplýsingakerfi til að finna hvar besta ræktunarlandið er í Rangárþingi eystra og að flokka það eftir hentugleika til ræktunar að teknu tilliti til þeirra viðmiða sem skilgreind verða. Með því að beita fjölþátta ákvarðanagreiningu í landupplýsingakerfi og nýta nýjustu landupplýsingagögn sem tiltæk eru við flokkunina, fæst önnur nálgun á flokkun hér á landi. Aðferðin gefur kost á að taka inn í matið viðmið eins og vistgerðir og jarðvegsgerðir og meta þau eftir hæfni til ræktunar. Niðurstaða flokkunarinnar mun nýtast við skipulagsákvarðanir, en aðferðina verður hægt að yfirfæra yfir á önnur sveitarfélög á auðveldan máta.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
MS_Ritgerd_GudrunLara.pdf | 13,12 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |