is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskólinn á Akureyri > Hug- og félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/3633

Titill: 
 • Skaðabótareglur laga um lausafjárkaup nr. 50/2000 og laga um fasteignakaup nr. 40/2002 - bótagrundvöllur
Námsstig: 
 • Meistara
Leiðbeinandi: 
Útdráttur: 
 • Ritgerð þessi er lokaverkefni til M.L. prófs í lögfræði við Háskólann á Akureyri. Teknar voru til skoðunar skaðabótareglur lausafjárkaupalaga nr. 50/2000 (hér eftir lkpl.) og fasteigna-kaupalaga nr. 40/2002. (hér eftir fkpl.)
  Fyrst var gerð skoðun á því hvað fælist í hugtökunum beinu og óbeinu tjóni. Niðurstaðan var sú að skipting þessi hefur mjög mikil réttaráhrif þegar fjallað er um bótagrundvöllinn samkvæmt lkpl. og fkpl. Fer það því eftir bótagrundvellinum hvort tjónþoli fái einungis bætt beint tjón eða hvort hann fái einnig bætt óbeina tjónið. Beint tjón felur í sér m.a. verðrýrnun eða eyðileggingu. Óbeint tjón leiðir hins vegar af beina tjóninu og felur m.a. í sér tekjumissi vegna beina tjónsins.
  Í næstu köflum er síðan fjallað um skaðabætur sem vanefndarúrræði vegna vanefnda. Vanefndir þær sem um ræðir eru afhendingardráttur af hálfu seljanda, galli á söluhlut, vanheimild af hálfu seljanda og greiðsludráttur af hálfu kaupanda.
  Í kaflanum um afhendingardrátt af hálfu seljanda er fjallað um skaðabótareglur 27. gr. lkpl. og 34. gr. fkpl. Getur kaupandi samkvæmt lagagreinum þessum krafist skaðabóta á tvenns konar bótagrundvelli, þ.e. í fyrsta lagi á grundvelli reglunnar um stjórnunarábyrgð, sem bætir þá einungis beint tjón kaupanda, og í öðru lagi á grundvelli reglunnar um sakarábyrgð, sem bætir beint og óbeint tjón.
  Í kaflanum um rétt kaupanda til að gera kröfu um skaðabætur vegna galla á söluhlut er fjallað um skaðabótareglur 40. gr. lkpl. og 43. gr. fkpl. Getur kaupandi hér gert kröfur um skaðabætur á grundvelli fjögurra bótareglna. Í fyrsta lagi á grundvelli reglunnar um stjórnunarábyrgð, í öðru lagi á grundvelli reglunnar um sakarábyrgð, í þriðja lagi getur kaupandi gert kröfu um skaðabætur ef skortur er á áskildum kostum og í fjórða lagi ef seljandi vanrækir að bæta úr galla.
  Í kaflanum um rétt kaupanda til skaðabóta vegna vanheimilda af hálfu seljanda er fjallað um skaðabótareglur 41. gr. lkpl. og 46. gr. fkpl. Grundvöllur skaðabótaábyrgðar er mismunandi eftir því hvort um sé að ræða upprunalega eða eftirfarandi vanheimild. Bótagrundvöllur upprunalegrar vanheimildar byggist á hreinni hlutlægri ábyrgð. Hins vegar byggist bótagrundvöllur eftirfarandi vanheimildar á reglunum um galla, þ.e.a.s. reglunni um stjórnunarábyrgð, reglunni um sakarábyrgð og einnig reglunni um ábyrgð á áskildum kostum.
  Í kaflanum um drátt á greiðsluverði kaupverðs er fjallað um skaðabótareglur 1. mgr. 57. gr. lkpl. og 1. mgr. 52. gr. fkpl. Í kafla þessum er því fjallað um rétt seljanda til skaðabóta, ólíkt framangreindum köflum, þar sem réttur kaupanda til skaðabóta er umfjöllunarefni. Ef um er að ræða drátt á greiðsluverði kaupverð, þá er bótagrundvöllurinn byggður á reglunni um stjórnunarábyrgð. Reglan um stjórnunarábyrgð er hér mjög ströng og ber því kaupandi ábyrgð á bæði beinu og óbeinu tjóni. Hins vegar ef um aðrar vanefndir kaupanda er að ræða gilda almennar reglur 27. gr. lkpl. og 34. gr. fkpl. Bótagrundvöllurinn byggist því hér annars vegar á reglunni um stjórnunarábyrgð, sem bætir þá einungis beint tjón og hins vegar á reglunni um sakarábyrgð, sem bætir bæði beint og óbeint tjón.
  Niðurstaðan er því sú að reglan um stjórnunarábyrgð er meginregla lkpl. og fkpl. þegar fjallað er um bótagrundvöllinn. Regla þessi bætir einungis beint tjón, með þeirri undantekningu sem segir í þeim lagagreinum sem taka til greiðsludráttar af hálfu kaupanda, þar nær ábyrgð kaupanda bæði til beins og óbeins tjóns. Að meginstefnunni til verður því að vera fyrir hendi sök til þess að bótaábyrgð vegna óbeins tjóns stofnist. Óbeint tjón fæst því einungis bætt að meginstefnunni til á grundvelli sakarábyrgðar.

Athugasemdir: 
 • Verkefnið er lokað
Samþykkt: 
 • 23.9.2009
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/3633


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Skaðabótareglur laga um lausafjárkaup nr. 50.2000 og laga um fasteignakaup nr. 40.2002 - bótagrundvöllur.PDF889.78 kBLokaður"Skaðabótareglur laga um lausafjárkaup nr. 50/2000 og laga um fasteignakaup nr. 40/2002 - bótagrundvöllur" - heildPDF
Skaðabótareglur laga um lausafjárkaup nr. 50.2000 og laga um fasteignakaup nr. 40.2002 - bótagrundvöllur - Efnisyfirlit.pdf132.74 kBOpinn"Skaðabótareglur laga um lausafjárkaup nr. 50/2000 og laga um fasteignakaup nr. 40/2002 - bótagrundvöllur" - EfnisyfirlitPDFSkoða/Opna