Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/36408
Tæknin er sífellt að verða stærri hluti af lífi okkar. Tækni sem er hönnuð til að aðstoða okkur og gera okkur lífið léttara er orðin að eðlilegum hluta lífs okkar og við tökum varla eftir því hve mikil áhrif tæknin hefur á okkur. Tæknin hefur óneitanlega haft gríðarmikil áhrif á það hvernig við högum okkur og vöfrum um daglega í lífi okkar og ljóst er að samband manns og tölvu hefur sjaldan verið eins sterkt og í dag. Í þessari ritgerð mun ég skoða hvernig nákvæmlega tæknin hefur áhrif á okkur þegar kemur að túlkun og skilningi á nánasta umhverfi okkar og hvernig það speglast í upplifun fólks á myndlistarverkum sem notast við stafræna miðla sem tól til upplifunar og túlkun verkanna. Í því samhengi skoða ég hugtakið post-digital og styðst við grein Kim Cascone „The Aesthetics of Failure: „Post-Digital“ Tendencies in Contemporary Music“ til að skýra hvernig stafrænn miðill getur orðið að frásagnartóli þegar hann er notaður á hátt sem ekki var ætlast til af honum. Því til hliðsjónar skoða ég skrif Marshall McLuhan „The Medium is the Message‟ um miðla og inntak þeirra til að öðlast dýpri skilning á merkingu og hegðun miðla. Minn skilningur á post-digital verður settur skýrt fram, þar sem hugtakið er afar vítt og órætt, til að setja post-digital í samhengi við mína eigin list og til að sýna hvernig hugtakið kemur fram í mínum verkum. Verk Clement Valla og Jon Rafman ásamt skrifum Hito Steyerl verða sett í samhengi við almenna túlkun og mína eigin túlkun á post-digital. Að lokum tek ég fyrir nokkur af mínum eigin verkum sem ýmist eru unnin beint út frá post-digital eða falla á einn eða annan hátt undir hugtakið.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
BA_Ritgerð_AK.pdf | 31.16 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |