Please use this identifier to cite or link to this item: https://hdl.handle.net/1946/3643
Í kjölfar hernáms Breta á Íslandi í maí 1940 var stofnuð loftvarnanefnd í Reykjavík að frumkvæði lögreglustjóra bæjarins, Agnars Kofoed-Hansens. Loftvarnanefndir voru síðan stofnaðar á þéttbýlisstöðum um allt land í kjölfar loftvarnalaga sem sett voru haustið 1940. Hér verður hins vegar aðeins fjallað um starf nefndarinnar í Reykjavík, en hún annaðist í senn opinberar loftvarnaráðstafanir í Reykjavík og leiðbeindi bæjarbúum um viðbrögð við árásum. Loftvarnanefnd lét það verða eitt af sínu fyrstu verkum að koma á fót fjölmennum hjálparsveitum sjálfboðaliða til stuðnings slökkviliði og lögreglu bæjarins.
Þá lét nefndin útbúa tugi loftvarnaskýla í kjöllurum rammbyggðra steinhúsa í höfuðstaðnum ásamt því að koma upp aðvörunarkerfi til að láta vita af yfirvofandi hættu. Aðvörunarkerfi þetta var tvíþætt. Í fyrsta lagi var komið upp fjölda rafflautna (sírena) í bænum sem vældu þegar loftvarnarmerki var gefið. Í öðru lagi var komið upp sérstökum búnaði hjá landsímanum sem hringdi í alla síma bæjarins á sama tíma og kveikt var á rafflautunum.
Nefndin lagði mikla áherslu á að uppfræða almenning þar sem það var talin ein lykilforsenda þess að giftusamlega tækist til ef til loftárása kæmi. Hún lét útbúa leiðbeiningabækling fyrir almenning sem gefinn var út sumarið 1940 og birti einnig ýmsar tilkynningar og fræðslugreinar um loftvarnir í dagblöðunum.
Haldnar voru reglulega loftvarnaæfingar á vegum nefndarinnar. Fjöldi þessara æfinga var í samræmi við flug Þjóðverja til landsins en það jókst nokkuð eftir því sem leið á árið 1941. Loftvarnaæfingarnar voru þó ekki eina íhlutun nefndarinnar í daglegt líf fólks í höfuðstaðnum. Helsta dæmið um slíka íhlutun var skipulagður brottflutningur barna úr bænum sumrin1940-1944. Loftvarnanefndin lét einnig gera áætlun um almennan brottflutning bæjarbúa að undirlagi herstjórnarinnar, þó hún hafi aldrei komið til framkvæmda. Sama átti við áform um allsherjar myrkvun bæjarins sem lögreglustjóri tilkynnti um á blaðamannafundi sumarið 1940 og vakti svo hörð viðbrögð að ekkert varð úr framkvæmd.
Filename | Size | Visibility | Description | Format | |
---|---|---|---|---|---|
ari_fixed.pdf | 700.52 kB | Open | Heildartexti | View/Open |