Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/3682
Ritgerðin fjallar í megindráttum um tengslin á milli raunfærni starfsmanna á
leikskólanum Norðurbergi í Hafnarfirði og símenntunaráætlana sem gerðar eru og
sniðnar að meginþemum í uppeldisstarfi skólans. Í því sambandi er kannað mat
stjórnenda, starfsmanna og foreldra á færni starfsmanna til að skila fullnægjandi
mótun barnanna á sviði umhverfismenntar og samskiptafærni. Þekking barnanna á
umhverfismennt og samskiptafærni var einnig könnuð. Jafnframt er greint samspil
símenntunaráætlana, raunfærni starfsmanna og samhæfðs árangursmats (Balanced
scorecard) sem Hafnarfjarðarbær innleiddi. Loks er gerð grein fyrir inntaki og
sögulegri þróun lykilhugtaka.
Þrjár rannsóknarspurningar voru settar fram og þeim svarað á grundvelli
fyrirliggjandi niðurstaðna rannsókna. Aðferðirnar voru hvort tveggja eigindlegar og
megindlegar. Rætt var ítarlega við leikskóla- og aðstoðarleikskólastjóra, auk
deildarstjóra um stefnumótun, starfsþjálfun og símenntunaráætlanir leikskólans.
Skriflegar spurningakannanir voru lagðar fyrir starfsmenn og foreldra en rætt
einslega við hóp barna á mismunandi leikskólaaldri.
Niðurstöður rannsóknarinnar voru almennt jákvæðar. Að mati starfsmanna eru
umtalsverð tengsl milli símenntunaráætlana og óformlegs náms annars vegar og
faglegrar þróunar og þjálfunar hins vegar. Tæplega 90% foreldra telja raunfærni
starfsmanna vera mikla eða mjög mikla. Þessi mælanlega raunfærni endurspeglast í
þeim uppeldislega árangri sem starfsmenn hafa skilað í mótun barnanna. Þau hafa í
yfirgnæfandi mæli þekkingu á umhverfismennt og ráða yfir samskiptafærni og skilja
í stórum dráttum um hvað sú félagsfærni snýst.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
09_fixed.pdf | 1,72 MB | Lokaður | Heildartexti |