Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/3686
Áhættutaka í skaðabótarétti er afar áhugavert hugtak, ekki síst vegna þess að um áhættutöku gilda ólögfestar reglur og notkun hugtaksins er langt frá því að vera niðurnjörvuð í íslenskum rétti. Gefur það því svigrúm til umfjöllunar um notkun þess frá ýmsum hliðum en lítið hefur verið skrifað um hugtakið af íslenskum fræðimönnum.
Aðallega hefur áður verið fjallað um notkun áhættutöku í sambandi við íþróttir, tómstundir og farþega sem taka sér far með ölvuðum ökumanni og hefur verið talið að áhættutaka geti fellt niður bætur í þessum tilvikum en algert brottfall bótaréttar af þessum sökum á sér yfirleitt ekki stað utan þessara sviða. Hér verður hins vegar fjallað um notkun áhættutökuhugtaksins í víðari skilningi, og kannað hvort áhættutaka geti haft margvíslegri réttaráhrif í framkvæmd en samkvæmt almennri skilgreiningu á áhættutöku sem ábyrgðarleysisástæðu. Sá möguleiki að nota sjónarmið um áhættutöku sem þátt í mati á sök eða þegar komist er að niðurstöðu um það hvort hlutlæg bótaábyrgð sé til staðar, verður skoðaður, bæði með hliðsjón af umfjöllun fræðimanna og ályktunum dregnum af íslenskum sem öðrum norrænum dómum á þessu sviði.
Leitast verður við að tengja áhættutöku sjónarmiðum um eigin sök tjónþola og sjónarmiðum um ólögfestar hlutlægar bótareglur, og lögð áhersla á vinnuslys og bótarétt tjónþola á hendur atvinnurekanda. Loks verður rýnt í dóma vegna vinnuslysa starfsmanna Vegagerðar ríksins og hvaða sjónarmiða þar gætir varðandi bótarétt starfsmanna sem vinna við hættulegar aðstæður, svo sem á svæðum þar sem hætta er á grjóthruni eða snjóflóði.
Óhjákvæmilegt er að tæpa á öðrum reglum er tengjast áhættutöku þar sem skilin á milli bótagrundvalla og ástæðna brottfalls bóta eru afar óskýr og hefur Hæstiréttur ekki tekið skýra afstöðu í þessum efnum.
Í 2. kafla verður hugtakið áhættutaka skýrt og fjallað almennt um notkun þess í íslenskum rétti.
Í 3. kafla verða réttaráhrif áhættutöku sem hlutrænnar ábyrgðarleysisástæðu skoðuð og íslensk og norsk dómaframkvæmd athuguð í ljósi þeirrar reglu. Athugað verður hvort áhættutaka sé í raun ábyrgðarleysisástæða sem hefur í för með sér algera niðurfellingu bótaréttar eða hvort önnur sjónarmið gilda um notkun áhættutökusjónarmiða í dómaframkvæmd.
4. kafli mun fjalla um áhættutöku með sérstakri áherslu á notkun hugtakins í mati á því hver ber ábyrgð á vinnuslysum. Verður fjallað um þetta með tilliti til ábyrgðar atvinnurekanda á starfsmönnum sínum og vinnuaðstæðum þeirra og einnig sjónarmiða um eigin sök eða áhættutöku tjónþola. Hér verður litið til reglna um ólögfesta hlutlæga ábyrgð atvinnurekanda og í framhaldi af því verður kannað hvort kenningar Henry Ussing um hættulegan atvinnurekstur hafi haft áhrif í íslenskum rétti.
5. kafli verður helgaður umfjöllun um slys á starfsmönnum Vegagerðar Ríksins við hættulegar aðstæður, nánar tiltekið þegar um snjóflóð eða grjóthrun er að ræða. Fjórir Hæstaréttardómar verða skoðaðir og niðurstöður og hugleiðingar úr fyrri köflum mátaðar við forsendur Hæstaréttar og umfjöllun réttarins um bótarétt starfsmannanna á hendur Vegagerðar Ríksins.
Loks verða niðurstöður reifaðar í 6. kafla.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Asta_Soley_fixed.pdf | 255,35 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |