is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/36889

Titill: 
 • Salmonella sýkingar á Íslandi 2005-2019: Samanburður á sjúklingum með ífarandi sýkingu og iðrasýkingu
Námsstig: 
 • Bakkalár
Útdráttur: 
 • Inngangur: Nýgengi iðrasýkinga af völdum non-typhoidal Salmonella sermisgerða hefur verið metið á heimsvísu sem 93,8 milljónir tilfella á ári og þar af eru um 155.000 dauðsföll en sú tala tekur ekki tillit til ífarandi sýkinga (Ao o.fl., 2015; Majowicz o.fl., 2010). Skv. kerfisbundnu yfirliti frá árinu 2015 var árlegt nýgengi ífarandi Salmonella-sýkinga 3,4 milljónir tilfella á heimsvísu eða um 49 tilfelli fyrir hverja 100.000 íbúa að meðaltali (Ao o.fl., 2015). Engar slíkar rannsóknir á faraldsfræði Salmonella-sýkinga hafa verið gerðar hérlendis. Þá eru samanburðarrannsóknir á ífarandi sýkingum og iðrasýkingum einnig af skornum skammti. Markmið þessarar rannsóknar er tvíþætt (1) Að lýsa faraldsfræði Salmonella-sýkinga á Íslandi síðastliðin 15 ár. (2) Að kanna hvernig sá hópur sem fær ífarandi Salmonella-sýkingu er frábrugðinn þeim sem fær iðrasýkingu og gefa yfirlit um meðferð sjúklinga og afdrif.
  Efniviður og aðferðir: Gögn voru sett saman yfir alla þá sem greinst höfðu með Salmonella-sýkingu á Íslandi frá 1. janúar 2000 til 31. desember 2019, skv. gögnum Sýklafræðideildar Landspítala. Úr þessum gögnum var klínískum upplýsingum safnað um blóðsýkta einstaklinga og sýkingarvald þeirra árin 2005-2019 og fyrir hvern slíkan voru tveir einstaklingar með iðrasýkingu paraðir m.t.t. aldurs, kyns og greiningardagsetningar og upplýsingum jafnframt safnað um þá. Gögnin voru skráð í REDcap. Þaðan voru gögnin flutt sem Excel-skjal inn í tölfræðiforritið R sem notað var til tölfræðilegrar greiningar.
  Niðurstöður: Alls voru 1081 sýni frá 949 einstaklingum greind jákvæð fyrir Salmonella á Íslandi á rannsóknartímabilinu, þar af voru 56 jákvæðar blóðræktanir frá 38 einstaklingum. Nýgengi Salmonella var lægst árið 2010: 10,7/100.000 íbúa og hæst árið 2008: 42,8/100.000 íbúa. Meðaltal nýgengis yfir rannsóknartímabilið reiknaðist sem 19,9/100.000 íbúa. Erlend smit voru um 69% allra smita þar sem uppruni smits var þekktur. Af innlendum smitum reyndist S. Typhimurium vera algengasta sermisgerðin (35,2%) en af erlendum reyndist það vera S. Enteritidis (57,2%). Ónæmi fyrir ampicillíni reyndist vera 24,8% meðal innlendra stofna en 15,1% meðal erlendra. Þá hafa tilfelli síprófloxacín-ónæmra Salmonella-stofna verið að fjölga milli ára á Íslandi. Í sjúklinga- samanburðarrannsókn á blóðsýkingum og iðrasýkingum voru sjúklingar á aldrinum 0-95 ára og voru konur um 60% blóðsýkingarhópsins. S. Napoli ræktaðist í um 2% allra Salmonella-tilfella á rannsóknartímabilinu og reyndist vera sýkingarvaldur í 15,8% tilfella blóðsýkinga sem þýðir að sermisgerðin hefur valdið ífarandi sýkingu í um 32% tilfella. Einkenni iðrasýkinga virðast fyrst og fremst vera niðurgangur (98,6%) en helstu einkenni blóðsýkinga reyndust vera hiti (89,5%), magnleysi/slappleiki (63,2%), kuldahrollur/skjálfti (34,2%) og höfuðverkir (31,6%). Þá sýna blóðsýktir einkenni að meðaltali u.þ.b. átta dögum lengur en iðrasýktir. Enginn marktækur munur var á blóðgildum iðrasýktra og blóðsýktra. Blóðsýktir einstaklingar fengu sýklalyfjameðferð í 94,7% tilfella og var kefalósporín mest notaða sýklalyfið við blóðsýkingum bæði sem fyrsta (55,3%) og annað lyfjaval (26,3%). Hvað varðar iðrasýkta fengu 40,8% þeirra sýklalyfjameðferð og voru flúorókínólón algengasta fyrsta lyfjaval en 90,1% iðrasýktra fengu ekki fleira en eitt sýklalyf. Blóðsýktir voru að meðaltali 17,4 sólarhringum lengur á sýklalyfjum en iðrasýktir.
  Ályktanir: Nýgengi Salmonella á Íslandi hefur verið talsvert lægra eftir árið 2008 sem mögulega er hægt að útskýra með efnahagskreppunni sem skall á það árið. Ónæmi Salmonella-stofna á Íslandi fyrir sýklalyfjum er áhyggjuefni þar sem um fjórðungur innlendra Salmonella-stofna reyndist ónæmur fyrir ampicillíni og virðist síprófloxacín-ónæmi fara vaxandi yfir rannsóknartímabilið. Innan rannsóknarhópsins voru 5,5% með undirliggjandi illkynja sjúkdóm en þeim einstaklingum var hættara við að fá blóðsýkingu og endursýkingu, því þarf sérstaklega að gæta að þeirra meðferð. Salmonella Napoli olli ífarandi sýkingum í um 32% sýkinga af völdum sermisgerðarinnar en það er töluvert hærra hlutfall en sést hefur í öðrum rannsóknum. Iðrasýktir fengu sýklalyf í 40,8% tilfella sem er hátt hlutfall þegar horft er til þess að ekki hefur verið sýnt fram á gagnsemi slíkrar meðferðar við Salmonella. Þá virðast Salmonella-sýkingar leggjast af meiri þunga á blóðsýkta einstaklinga en iðrasýkta. Blóðsýktir sýna einkenni lengur, eru frekar lagðir inn á sjúkrahús, fá frekar vökva í æð, eru lengur á sýklalyfjum að meðaltali og líklegri til að látast en iðrasýktir.

Samþykkt: 
 • 10.8.2020
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/36889


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Salmonella sýkingar á Íslandi 2005-2019 - Samanburður á sjúklingum með ífarandi sýkingu og iðrasýkingu.pdf1.02 MBLokaður til...10.08.2022HeildartextiPDF
Yfirlysing.jpg2.82 MBLokaðurYfirlýsingJPG