Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/36908
Curver Thoroddsen (f. 1976) er myndlistar– og tónlistarmaður sem vinnur þvert á miðla og hefur framkvæmt raunveruleikagjörninga síðan hann útskrifaðist frá Listaháskóla Íslands árið 1999. Þrátt fyrir að raunveruleikagjörningar Curvers hafi margþættar menningarpólitískar skírskotanir og feli í sér samfélagsgagnrýni, hefur lítið verið skrifað um verk hans í listfræðilegu samhengi.
Í ritgerðinni er hlutverk áhorfenda í raunveruleikagjörningum Curvers skoðað sérstaklega og í því samhengi verða gjörningarnir kortlagðir. Þá verða verkin Íbúðin (2004–2005), Nafnabreytingin (2006), Sliceland–Vestustu pizzur í Evrópu (2009), Fjölskylduskemmtun í Nýlistasafninu (2012) og Verk að vinna (2014), greind sérstaklega. Gjörningarnir eru settir í listsögulegt samhengi og mátaðir við kenningar franska listfræðingsins Nicolas Bourriaud um vensla– og eftirvinnslulist ásamt kenningum breska listfræðingsins Claire Bishop um þátttökulist.
Curver notar óhefðbundin tjáningarrými og fjölbreytta miðla til að lauma listinni í vitund almennings og virkjar fólk, meðvitað og ómeðvitað, til þátttöku í verkum sínum. Í niðurstöðum ritgerðarinnar er sýnt fram á hvernig Curver fær áhorfandann til að spegla sjálfan sig og eigin veruleika með því að staldra við andspænis upphafningu hversdagsleikans sem varpar ljósi á það sammannlega. Gjörningarnir skapa vettvang til frjálsra samskipta þar sem áhorfendur upplifa þá á eigin forsendum. Þátttakan verður því hluti af víðara sköpunarferli og sjálfu listaverkinu. Þrátt fyrir frjáls samskipti áhorfenda er þeirri spurningu varpað upp í lokin hvort þátttaka þeirra í gjörningunum geri þá í raun að neytendum?
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
ListraennTrojuhesturHlutverkAhorfenda.pdf | 1,46 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
Skemma yfirlysing.pdf | 268,38 kB | Lokaður | Yfirlýsing |