Please use this identifier to cite or link to this item: http://hdl.handle.net/1946/36912
Bakgrunnur: Mat á sjúklingum með sár er mikilvægur hluti sárameðferðar. Á því byggist greining sársins og meðferðaráætlun. Enginn einn viðurkenndur alþjóðlegur staðall er til um þá matsþætti sem rétt þykir að afla þegar sjúklingar með sár eru metnir.
Markmið: Kanna hvaða þættir eru mikilvægir við mat á sjúklingum með sár að mati hjúkrunarfræðinga sem sinna sárum og sárameðferð á Íslandi. Einnig að skoða hvaða þætti hjúkrunarfræðingar á Smitsjúkdómadeild Landspítala meta og skrá í sjúkraskrá sjúklinga með sár og að bera niðurstöður þessara rannsókna saman.
Aðferð: Rannsóknin er megindleg með lýsandi rannsóknarsniði og er fjórþætt: i) Fræðileg samantekt á 27 fræðilegum greinum um mat á sárum. ii) Spurningakönnun til 19 hjúkrunarfræðinga sem starfa á Landspítala, Sjúkrahúsinu á Akureyri og við heilsugæslu/heimahjúkrun og sinna sárameðferð, sem mátu eða tóku afstöðu til mikilvægis 50 matsþátta við mat á sjúklingi með sár. iii) Rannsókn á 99 sjúkraskrám sjúklinga með hjúkrunargreiningarnar vefjaskaði – sár, fótasár og þrýstingssár, sem lágu inni á Smitsjúkdómadeild Landspítala á árinu 2019. Skoðuð var hjúkrunarskráning um 50 þátta við mat á sárum og frjáls texti innihaldsgreindur. iv) Samanburður á niðurstöðum rannsóknarhluta ii) og iii).
Niðurstöður: Um 56 matsþættir komu fram í fræðilegu samantektinni sem fjölluðu um mat á sárum. Samanburður á niðurstöðum spurningakönnunar og sjúkraskrárrannsóknar leiðir í ljós að talsvert skortir á að skráning hjúkrunarfræðinga Smitsjúkdómadeildar Landspítala endurspegli þá matsþætti sem hjúkrunarfræðingar sem sinna sárum telja vera mjög mikilvæga. Átján matsþættir sára af 44 voru taldir mjög mikilvægir af fleiri en 75% hjúkrunarfræðinga, 18 matsþættir af 50-75% hjúkrunarfræðinga og 8 þættir hjá færri en 50%. Af skráðum matsþáttum var einungis einn matsþáttur (staðsetning) skráður hjá meira en 75% sjúklinga, þrír matsþættir (staðbundin sýking í sári, ástand húðar kringum sár og eðli sáravessa) hjá 50-75% sjúklinga og 40 matsþættir skráðir hjá færri en 50% sjúklinganna. Lítið samræmi var því milli þess sem hjúkrunarfræðingar töldu vera mikilvæga matsþætti sára og þess sem skráð var.
Ályktun: Samræmi skráningar getur leitt til aukinna gæða hjúkrunar, betri nýtingar tíma hjúkrunarfræðinga og betri meðferðar fyrir sjúklinga. Mikilvægt er að staðla verklag þegar kemur að því að meta sjúklinga með sár.
Lykilorð: Sár, mat á sárum, hjúkrunarfræðingar, hjúkrunarskráning.
Filename | Size | Visibility | Description | Format | |
---|---|---|---|---|---|
MS - Ritgerð.pdf | 2.44 MB | Open | Complete Text | View/Open | |
20-09-02-Yfirlýsing-um-meðferð-lokaverkefna-ERR.pdf | 279.79 kB | Locked | Declaration of Access |