Please use this identifier to cite or link to this item: http://hdl.handle.net/1946/37013
Eftirspurn eftir lífrænum vörum hefur aukist á undanförnum árum en þrátt fyrir jákvætt viðhorf neytenda til umhverfisverndar þá skilar það sér ekki alltaf í raunverulegum kaupum. Ýmsar kenningar hafa verið settar fram til þess að skýra hvað veldur þessu ósamræmi og hefur því m.a. verið haldið fram að það þurfi að skoða fleiri þætti en bara viðhorf neytenda til að segja til um kaupáform. Markmiðið með þessari rannsókn var að kanna hvort, og hvernig, þættirnir umhverfisþekking, viðhorf til kaupa á lífrænum snyrtivörum, traust á lífrænum snyrtivörum, verð, huglægt mat og venjur annarra og skynjuð áhrif neytenda skýra kaupáform á lífrænum snyrtivörum. Auk þess var kannað hvernig tengslin eru á milli bakgrunnsbreyta þátttakenda og fyrrnefndra þátta. Megindleg rannsóknaraðferð var notuð og var sendur út rafrænn spurningalisti sem innihélt 28 fullyrðingar sem sneru að lífrænum snyrtivörum. Mælitækið var byggt á fyrri rannsóknum á umhverfisvænum vörum og fengust í heildina 438 svör. Niðurstöður leiddu í ljós að allir þættirnir, nema traust á lífrænum snyrtivörum, höfðu tengsl við kaupáform á lífrænum snyrtivörum. Verð var sá þáttur sem hafði sterkustu tengslin við kaupáform á lífrænum snyrtivörum en skynjuð áhrif neytenda og viðhorf til kaupa á lífrænum snyrtivörum höfðu einnig nokkuð sterk tengsl. Það sýnir að framleiðendur lífrænna snyrtivara geta ekki treyst því að jákvætt viðhorf neytenda sé nóg til þess að vörurnar seljist, heldur eru mun fleiri þættir sem spila þar inn í. Ekki er vitað til þess að sambærileg rannsókn hafi verið gerð hér á landi og það er því hægt að nýta hana sem grunn að frekari rannsóknum auk þess sem framleiðendur og markaðsfólk getur nýtt sér niðurstöðurnar til þess að stuðla að aukinni sölu á lífrænum snyrtivörum. Mikilvægt er að fræða neytendur um kosti þess að velja lífrænar snyrtivörur fram yfir hefðbundnar snyrtivörur og byggja upp sterka og jákvæða ímynd í huga þeirra. Stór hópur stundar nú þegar aðra umhverfisvæna hegðun eins og að flokka rusl, keyra um á rafbílum, nota fjölnota poka í staðinn fyrir plastpoka o.s.frv. og því má ætla að neytendur séu opnir fyrir því að taka umhverfisvæna lífsstílinn skrefinu lengra með því að skipta yfir í lífrænar snyrtivörur.
Filename | Size | Visibility | Description | Format | |
---|---|---|---|---|---|
Hvaða þættir skýra kaupáform á lífrænum snyrtivörum?.pdf | 788.19 kB | Open | Complete Text | View/Open | |
Yfirlýsing - skemman.pdf | 3.01 MB | Locked | Declaration of Access |