Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/37039
Meginviðfangsefni þessarar ritgerðar er rannsókn á orðaforða í kennsluefni sem notað er í kennslu fullorðinna byrjenda í íslensku sem öðru máli. Fjallað er um orðaforðatileinkun í öðru og seinni málum og atriði varðandi orðaforða sem eru mikilvæg að hafa í huga við val og gerð kennsluefnis fyrir kennslu annarra mála. Leitað var svara við þeirri spurningu hvort kennsluefni sem notað er í náminu íslenska sem annað mál, hagnýtt nám við Háskóla Íslands endurspegli þann orðaforða sem samsvarar kunnáttustigi og þörfum nemenda til daglegrar notkunar á íslensku. Rannsóknin fólst í orðaforðagreiningu; textasafn úr kennsluefni sem notað er í byrjun, miðju og enda hvers misseris var útbúið. Orðatalning var síðan framkvæmd og tíðni orðaforðans og námsálag (e. learning burden) var skoðað til þess að komast að því hvort þessi atriði séu í samræmi við kunnáttustig og þarfir nemenda. Einnig var hönnuð spurningakönnun til þess að kanna viðhorf nemenda til kennsluefnis og orðaforða sem fram kemur í því ásamt orðaforðanotkun þeirra. Spurningakönnunin var prófuð á nemendum í forrannsókn (e. pilot study) á haustönn 2019 og síðan lögð fyrir alla nemendur á vorönn 2020. Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu fyrst og fremst að erfitt er með þeim tækjum sem aðgengileg eru í dag að meta rauntíðni orðaforða í íslensku. Þar að auki kom í ljós að nemendur í íslensku sem öðru máli, hagnýtu námi eru almennt séð jákvæðir gagnvart notagildi orðaforða í kennsluefni námsins en óska eftir aukinni áherslu á orðaforða í kennsluefni og kennslu almennt. Út frá niðurstöðum orðaforðagreiningarinnar virðist orðaforði sem notaður er í kennsluefni hagnýta námsins frekar fjölbreyttur og stór hópur orða (39%) kemur aðeins fram einu sinni í textasafni þessarar rannsóknar sem veitir nemendum lítið tækifæri til þess að tileinka sér þennan orðaforða. Ekki er þó vitað hvernig byrjendum í íslensku tekst að vinna úr fölbreyttum og tíðnilágum orðaforða og þess vegna er lagt er til frekari rannsókna á tíðni orðaforða í íslensku og orðaforðatileinkun í íslensku sem öðru máli.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Asta Loa Getum við treyst á innsæið loka.pdf | 3.29 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
yfirlýsing skemman copy.pdf | 657.76 kB | Lokaður | Yfirlýsing |